139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í lok 2. umr. um Icesave-samningana þakka fyrir góð og málefnaleg skoðanaskipti í umræðum í dag og í gær. Icesave-málið hefur fengið eina þá ítarlegustu umfjöllun sem einstakt mál hefur fengið í sögu þingsins. Málið hefur hlotið vandaða umfjöllun í hv. fjárlaganefnd og fer að lokinni atkvæðagreiðslu aftur til nefndarinnar svo að ræða megi þau álitamál sem út af standa.

Ástæða er til að þakka þeim fjölmörgu sérfræðingum, embættismönnum og hagsmunasamtökum sem gefið hafa upplýsingar sem undirbyggt hafa ákvarðanir þingmanna og afstöðu þeirra í málinu. Vandaðar greiningar, skýrslur og minnisblöð hafa verið unnin að beiðni hv. fjárlaganefndar, auk umsagna um frumvarpið.

Ég vil einnig þakka félögum mínum í hv. fjárlaganefnd fyrir samvinnuna. Það er mikils virði í erfiðum málum að fulltrúar allra flokka nálgist málefnin með það að markmiði að finna saman bestu lausnina. Þannig er vinnulagið almennt í fjárlaganefnd þó að ekki náist alltaf sameiginleg niðurstaða allra nefndarmanna.

Síðast en ekki síst vil ég þakka varaformanni nefndarinnar, Birni Val Gíslasyni, fyrir samstarfið og einnig starfsmönnum nefndasviðs fyrir þeirra góða starf.