139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[15:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson, félagi minn í allsherjarnefnd og flokksbróðir, fór yfir nokkur af þeim sjónarmiðum sem við höfum haft uppi varðandi þetta mál, bæði í þingsalnum og sömuleiðis við meðferð málsins innan allsherjarnefndar.

Ég vil nú ítreka það sem fram hefur komið að við stöndum ekki að nefndaráliti meiri hlutans af efnislegum ástæðum og vegna þeirrar málsmeðferðar sem viðhöfð var í allsherjarnefnd af hálfu meiri hlutans. Málið var tekið þangað milli 2. og 3. umr. og óskuðum við þá strax eftir því að fulltrúar Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands, Ákærendafélag Íslands og dómstólaráðs yrðu kallaðir fyrir nefndina til að veita henni munnlegt álit sitt á frumvarpinu, bæði þeim breytingartillögum sem fyrirsjáanlegt var að yrði að gera, stæði til að samþykkja frumvarpið á Alþingi, og sömuleiðis vegna annarra breytingartillagna sem meiri hlutinn lagði fram við 2. umr. málsins. Það er skemmst frá því að segja að við óskum okkar var ekki orðið af hálfu meiri hlutans, að undanskildu því að formaður Dómarafélagsins mætti á fund nefndarinnar og reifaði sjónarmið sín varðandi frumvarpið. Ég harma þá afstöðu meiri hlutans og gagnrýni harðlega þá málsmeðferð sem meiri hlutinn viðhafði í þessu máli og hér hefur verið lýst. Hún er í ósamræmi við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið árum saman á þinginu, að við slíkum óskum hafi verið orðið. Mér finnst miður í máli eins og þessu þar sem allir eru sammála meginmarkmiðunum að ekki hafi verið hægt að verða við þessum óskum okkar.

Í þessu frumvarpi er lagt til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað um þrjá og sömuleiðis verði dómurum við héraðsdómstóla fjölgað tímabundið um fimm. Tilgangur frumvarpsins er sá að styrkja og efla dómskerfið til þess að takast á við aukinn málafjölda hjá dómstólunum, ekki síst í kjölfar efnahagshrunsins. Það er alveg fyrirséð að dómsmálum mun fjölga, ekki síst ágreiningsmálum sem varða skipti á þrotabúum félaga sem farið hafa í þrot og ljóst er að ágreiningur mun rísa um.

Þá er rétt að gera ráð fyrir því að dómstólarnir þurfi, án þess að nokkuð sé fullyrt um það, að takast á við mjög stór og viðamikil efnahagsbrot sem hugsanlega kunna að koma þangað. Málafjöldinn er nú mikill fyrir, ekki síst í Hæstarétti, en einnig í héraðsdómi. Við því þarf að bregðast. Ég styð því þau markmið frumvarpsins eindregið að Alþingi búi þannig um hnútana að dómstólar séu betur í stakk búnir á næstu missirum til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem þeim eru falin.

Mínar efasemdir varðandi þetta frumvarp eru hins vegar um þá leið sem farin er. Ég leyfi mér að efast um að hún sé sú skynsamlegasta sem í boði er. Ég hef sagt það og ég segi það enn að með þessu frumvarpi er verið að ráðast í ótímabundnar aðgerðir til þess að leysa tímabundinn vanda. Hvað ég við með því? Það er fyrirséð, eins og ég sagði áðan, að dómsmálum muni fjölga, ekki síst ágreiningsmálum vegna skipta þrotabúa. Þeim mun hins vegar væntanlega fækka aftur þegar dómstólar hafa komist yfir stabbann af þessum málum. Það mun taka einhver missiri. Ég tel að við slíkar aðstæður hefðum við átt að reyna að grípa til aðgerða sem væru tímabundnar til þess að leysa vandann sem jafnframt er tímabundinn, í stað þess að fjölga dómurum með ótímabundnum ráðningum, vegna þess að dómurum verður ekki sagt upp störfum, það er bara eðli þeirra ráðningarkjara.

Þess vegna höfum við haft uppi ýmsar aðrar hugmyndir en þær sem frumvarpið mælir fyrir um, t.d. að fjölga aðstoðarmönnum hæstaréttardómara, tryggja hverjum hæstaréttardómara aðstoðarmann og fjölga sömuleiðis aðstoðarmönnum hjá héraðsdómstólunum. Við höfum líka varpað fram hugmyndum um að dómarar verði settir eða skipaðir tímabundið meðan mesta álagið er á dómskerfinu. Því hefur verið haldið fram að sú leið sé ekki fær vegna þess að með því að skipa dómara tímabundið eða setja þá sé í rauninni verið að bjóða þeirri hættu heim að dómarar teljist ekki sjálfstæðir gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Öll þau sjónarmið eru málefnaleg. Ég tek undir þau að því leyti að þau ganga upp. Hins vegar hefur landsdómur verið kallaður saman og er ljóst að fimm af reyndustu dómurum Hæstaréttar Íslands munu þurfa að taka sæti í honum og þeir sinna væntanlega ekki dómstörfum í Hæstarétti á meðan. Við þeirri stöðu þarf að bregðast. Það verður væntanlega gert með því að skipaðir verða dómarar tímabundið við réttinn vegna þeirra málaferla. Ég hef ekki heyrt nein rök sem færð hafa verið fram af hálfu fylgismanna þessara frumvarpa sem benda til þess að einhver önnur sjónarmið ættu að eiga við varðandi hin almennu markmið þessa frumvarps. Ég fæ ekki séð annað en að hér sé á ferðinni einn og sami hluturinn. Gott og vel.

Mín skoðun er sú að Alþingi og ríkisstjórn eigi að stefna að því afdráttarlaust og einhenda sér í það mál að efla og styrkja dómstólana með því millidómstig á Íslandi í dómskerfinu. Þá hugmynd held ég að allir styðji; fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, dómarar styðja þá hugmynd, lögmenn gera það líka og eins samtök lögfræðinga og samtök ákærenda. Ég hef ekki hitt fyrir neinn mann sem starfar í réttarkerfinu sem andmælir slíkri hugmynd. Það er rétt að nýju millidómstigi mun fylgja kostnaður, en varlega hefur verið áætlað að kostnaður við millidómstig verði í kringum 200 milljónir á ári, sem er sambærilegt við það sem einar kosningar til stjórnlagaþings kosta, svo dæmi sé tekið.

Ég held að með þeirri breytingu sem lögð er til verði okkur gert erfiðara að koma áformum okkar um að koma á millidómstigi í framkvæmd. Það byggi ég á því að sú hugmynd gengur síður upp vilji menn gera Hæstarétt Íslands að raunverulegum fordæmisdómstól, vegna þess að þá verða einfaldlega of margir dómarar fyrir í þeim rétti í því kerfi sem millidómstigið og þær hugmyndir sem það byggir á mælir fyrir um og gengur út á.

Ég vil síðan nefna það út af þessu frumvarpi og þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram af hálfu meiri hlutans að þær ganga ekki bara út á að dómurum verði fjölgað við Hæstarétt, heldur einnig að deildum innan réttarins fjölgi til samræmis við það. Það kann að vera óumflýjanlegt í því fyrirkomulagi sem Hæstiréttur Íslands starfar eftir samkvæmt núgildandi lögum, en ég held að það megi með mjög góðum rökum halda því fram, og undir það hefur verið tekið við meðferð málsins, að það eitt og sér að deildum Hæstaréttar fjölgi dragi úr vægi hans sem fordæmisdómstóls og bjóði þeirri hættu heim að ósamræmi í réttarframkvæmd aukist.

Í því sambandi vil ég vísa til þess sem fram kom í viðtali við einn dómara Hæstaréttar, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem var í viðtali núna í vikunni í sjónvarpsþættinum Návígi í ríkissjónvarpinu. Þar var hann inntur álits á þeim áformum að fjölga dómurum við Hæstarétt. Hann, dómarinn, sagði í þættinum, með leyfi forseta:

„Ég segi: Ringulreiðin sem af þessu leiðir bara eykst við þetta. Þar að auki er þetta til þess fallið að skjóta á frest raunverulegum breytingum við að koma á þessu millidómstigi.“

Það er skoðun dómarans við Hæstarétt að hætta sé á því að það frumvarp sem er til umfjöllunar auki ringulreið innan réttarins. Hvort sem menn eru sammála því sjónarmiði eða ekki hljótum við að taka alvarlega slíkar ábendingar vegna þess að þar talar maður sem starfað hefur innan réttarins um árabil, í ein sex ár hygg ég, og um áratugaskeið á öðrum sviðum í réttarkerfinu.

Ég ætla að varpa fram þeirri hugmynd við varaformann nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslason, sem mælti hér fyrir nefndaráliti og lagði til að frumvarpið yrði samþykkt að við ættum að reyna að ná samkomulagi um aðra leið. Ég vil að við setjum málið í salt og hefjum okkur upp úr þeim skotgröfum sem pólitíkin er oft í og þeim átökum sem einkenna stjórnmálin. Það er svo mikilvægt að mál sem snúa að dómskerfinu séu í lagi, að réttarframkvæmd öll sé samræmd og réttaröryggi borgaranna tryggt. Þá tel ég að í stað þess að fara þá leið sem lagt er til að farin verði, taki fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi sig saman um að útfæra lagafrumvarp og tillögur sem miða að því að koma millidómstigi á eins fljótt og auðið er. Það þarf ekki að taka langan tíma. Ég hygg að búið sé að vinna það mikið í þeirri hugmynd bæði innan ráðuneyta og hjá fagaðilum að það ætti að reynast okkur auðvelt að komast að þverpólitísku samkomulagi um með hvaða hætti hægt væri að koma millidómstigi fyrir. Ég sé fyrir mér að það gæti þess vegna tekið til starfa næsta haust.

Það er nú hugmynd sem ég legg fram og tel að með því að gera það með þeim hætti sem ég hef lýst leggi þingmenn mikilvægt lóð á vogarskálar þess markmiðs sem við viljum öll vinna að, þ.e. að styrkja, efla og treysta dómskerfið til framtíðar, en ekki grípa til ótímabundinna aðgerða til þess að leysa tímabundinn vanda og velta óumflýjanlegum breytingum á réttarkerfinu á undan okkur.

Það er sú sáttarhönd sem ég hef ákveðið að rétta fram í þessu máli og vonast innilega til þess að félagar mínir í hv. allsherjarnefnd sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum á þingi taki í hana fagnandi og einhendi sér í það verkefni sem ég hef lýst.