139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[15:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt best að segja ekki áttað mig á að það væri svona mikill ágreiningur um þetta mál. Ég er í allsherjarnefnd þar sem málið fór í gegn, þar hef ég ekki orðið vör við annað en að allir séu sammála um að fjölga þurfi hæstaréttardómurum. Það er hárrétt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafa verið með þessa tímabundnu leið og talað um fjölgun aðstoðarmanna. Formaður Dómarafélagsins sagði það mjög skýrt svo ég heyrði um daginn á fundi að aðstoðarmenn gætu ekki kveðið upp dóma, þeir gætu hjálpað til við rannsóknir og annað slíkt og vissulega hjálpaði það en það kæmi ekki í staðinn fyrir dómara.

Það hefur líka margoft verið sagt í mín eyru að millidómstóll, sem ég held að sé mjög skynsamlegt að hafa og við þurfum að hafa hér, kemur ekki í staðinn fyrir fjölgun hæstaréttardómara. Við þurfum að gera það líka. Ég held því að þessi sáttarhönd sem er sjálfsagt að taka í að því leytinu til að vinna að þessum millidómstól komi ekki í staðinn fyrir fjölgun hæstaréttardómara.

Svo vil ég líka mótmæla því að farið hafi verið með einhverjum þjösnaskap inn í 3. umr. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni vildu fá menn til að ræða um þessa breytingu á starfsháttum í Hæstarétti, um kjörtímabil forseta réttarins og þar fram eftir götunum. Formaður Dómarafélagsins (Forseti hringir.) kom, aðrir gestir gátu ekki komið. Ég vil bara mótmæla því að þar hafi einhver þjösnaskapur verið á ferðinni.