139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[15:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við erum sammála um að við eigum að styrkja og efla dómstólana. Við erum hins vegar ósammála um þær leiðir sem á að fara. Við erum efnislega ósammála, hygg ég, um ýmsar breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur fram á Alþingi til samþykktar. Ég bendi á að ég óttast að með því að fjölga dómurum við Hæstarétt Íslands með þeim hætti sem lagt er til með frumvarpinu, og við héraðsdómstólana, séum við að gera sjálfum okkur og dómskerfinu erfiðara fyrir að hér sé hægt að koma á millidómstigi eins og því sem við erum öll sammála um að eigi að byggja upp hér í dómskerfinu. Það eru mín sjónarmið varðandi það.

Ég hef síðan haft uppi efasemdir um ýmsa aðra þætti málsins eins og t.d. þann að það að hæstaréttardómurum verði fjölgað um þrjá leiði til þess að lengja þurfi kjörtímabil forseta Hæstaréttar úr tveimur árum í fimm, um 150%. Ég fæ ekki séð að sú breyting eins og sér leiði til þess að hún sé nauðsynleg. Það er ekki endilega í miklu samræmi við öll þau embættisverk sem forseti Hæstaréttar þarf að leysa vegna þess að hann er einn af handhöfum forsetavalds og fer með forsetavald í fjarveru forseta. Kjörtímabil forseta Íslands eru fjögur ár en þá hlýtur að skjóta skökku við að handhafi forsetavaldsins sé kosinn til lengri tíma en sá sem hann fer með valdið fyrir í fjarveru hans. Á þetta höfum við bent og ítrekum þær athugasemdir okkar.