139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef við værum nú í fyrsta skipti að eiga við Icesave-samningana er ég viss um að það væru hávær mótmæli úti um allt land vegna þess að ekki liggur fyrir hvort við eigum yfir höfuð að borga þá. Einnig mundi fólk víðs vegar um land gera athugasemdir við það að áhættan sé öll á Íslendingum. Það er hins vegar ekki staðan. Við verðum að horfa á málið í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur í tvígang samþykkt einhverja verstu samninga sem vestræn þjóð hefur samþykkt fyrir sitt leyti. Í því ljósi má segja að samningarnir séu frekar sanngjarnir.

Það verður hins vegar að líta á þá staðreynd að meiri hlutinn var ekki reiðubúinn að leggja mat á þá áhættu að leggja út í dómsmál og fá úr því skorið fyrir fullt og allt hvort íslenskri þjóð beri að borga fyrir mistök (Forseti hringir.) fjármálaútrásarvíkinga. Mín afstaða er skýr og hún hefur legið fyrir. Ég mun segja nei, frú forseti.