139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það hefur reynst ríkisstjórninni ákaflega erfitt að koma þessu máli í gegn. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti á það við umræðu í gær að það skaðaði ímynd landsins að ríkisstjórnin væri staðin að því aftur og aftur að geta ekki einu sinni gert milliríkjasamninga. Það er í sjálfu sér rétt en það er hins vegar eðlilegt að það sé erfitt að koma svona samningi í gegn. Kerfið er beinlínis til þess hannað að koma í veg fyrir að svona samningur sé gerður. Svona samning á ekki að vera hægt að gera vegna þess að hann felur það í sér að ríkið taki á sig skuldbindingar, breyti kröfum í skuldir sem er algjörlega óljóst hversu miklar eru og engin lagastoð er fyrir. Slíku á ekki að vera hægt að koma í gegnum þingið. Ætli menn sér samt að gera það, ætli menn sér að undirrita óútfylltan tékka fyrir hönd almennings, geta þeir ekki gert það án þess að biðja almenning fyrst um leyfi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)