139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum allir sammála um að þessi samningur sem nú liggur undir sé mun betri en sá sem var keyrður í gegnum þingið á sínum tíma. Ég er afskaplega stoltur af forustu míns flokks um hvernig þeir hafa haldið á þessu máli þó að svo sannarlega hafi fleiri aðilar komið þar að.

Ég fór hins vegar yfir það í dag að við skulum læra af mistökunum. Það er eitt mál sem við eigum algerlega eftir að útkljá og fara yfir og það snýr að þeim tryggingarsjóði sem meiningin er og nauðsynlegt með einhverjum hætti að byggja upp í kjölfar þessa. Það hefur ekki verið gert. Hv. fjárlaganefnd er ekki um að kenna en ég hvatti hana hins vegar til að skoða það mál sem er á vegum annarrar nefndar eins og er.

Þess vegna mun ég, virðulegi forseti, sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) en mun tjá mína endanlegu niðurstöðu þegar þar að kemur.