139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við stóðum í þessum sporum fyrir um ári og þá sögðu þingmenn meiri hlutans að það væri útilokað að það væri hægt að ná betri samningum og ef við mundum ekki semja þá og samþykkja það frumvarp sem þá var fyrir hendi hefði það í för með sér alvarlegar afleiðingar. Nú koma sömu þingmenn og segja að þetta sé miklu betri samningur, sem er rétt, vissulega rétt, en ekkert af því sem sagt var að mundi gerast hefur ræst. Það hefur allt farið á betri veg. Þá spyr ég sömu þingmenn aftur: Getur ekki verið að það sama eigi við um það ef við látum reyna á málið fyrir dómstólum? Er ekki um sama hræðsluáróðurinn að ræða? Hér er fullyrt að eitthvað hræðilegt muni gerast munum við láta reyna á málið fyrir dómstólum. Það hefur engin greining farið fram á því og sjálfstæðismenn ásamt meiri hlutanum höfnuðu því í fjárlaganefnd að á það yrði látið reyna. (Forseti hringir.) Og hér koma menn fram og segjast ekki treysta dómstólum. Ég vil benda á það að verði mál rekið um samningana verður það gert fyrir hérlendum dómstólum, Héraðsdómi Reykjavíkur (Forseti hringir.) og Hæstarétti Íslands. Það er mat þeirra lögfræðinga sem hafa sagt álit sitt í nefndinni. Ég mun af þessum ástæðum segja nei.