139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það verði seint um það deilt að Icesave-málið er löng sorgarsaga þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd í landinu. Það hafa mörg mistök verið gerð. [Kliður í þingsal.] Ég hef sjálfur lagt fram tillögur hér á þingi um það að embættisfærslur þeirra hæstv. ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn verði rannsakaðar en einhverra hluta vegna treysta þessir hæstv. ráðherrar sér ekki til þess að sú rannsókn fari fram. Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna svo sé.

Ég ætla ekki að greiða þessu máli atkvæði mitt. Það mun ganga til nefndar, það eru ýmsar þingnefndir sem munu fjalla um það nánar milli 2. og 3. umr. Það eru uppi sjónarmið í þjóðfélaginu og kröfur um að málið gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu sem þingið þarf að taka afstöðu til. Ég (Forseti hringir.) sit hjá í þessari atkvæðagreiðslu og endanlega afstöðu mína til málsins mun ég upplýsa við 3. umr. og lokaatkvæðagreiðslu.