139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:34]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nýjan samning um Icesave, mun betri samning en þann sem ég samþykkti í desember 2009. Ég er afar þakklát og auðmjúk gagnvart þeirri vinnu sem fram hefur farið með tilstyrk stjórnmálaafla, fræðimanna og fagaðila til að vinna að þessum bætta samningi og betri heimtum eigna sem ganga upp í skuldina. Ég hef alltaf verið sannfærð um að það væri best að semja við grannþjóðir okkar um þetta vandræðamál þó að ég sé heldur ekki í vafa um að lagaskyldan sé ekki fyrir hendi. Mér finnst að siðmenntaðar þjóðir eigi að reyna að ná samningum alveg til þrautar áður en dómstólaleið er nýtt.

Þjóð í uppbyggingarfasa eftir hamfarir þarf sérstaklega á því að halda að varðveita orðspor sitt svo hún sé trúverðug í ýmiss konar samstarfi, t.d. um fjárfrek verkefni á Íslandi. Ég ítreka að þessi samningur er vandræðamál en hagsmunir okkar sem þjóðar vega í mínum huga það þungt að ég velkist ekki í vafa um að (Forseti hringir.) segja já.