139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulagsmál, orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku felldi Hæstiréttur þann dóm að hæstv. umhverfisráðherra bæri að staðfesta skipulag fyrir austan fjall sem ágreiningur hefur verið um milli hreppanna og ráðuneytisins. Í framhaldinu bárust ýmis einkennileg svör frá hæstv. umhverfisráðherra sem ekki er til svara í dag, svör sem ég ætla ekki að fara nánar út í, en fyrri reynsla af störfum ríkisstjórnarinnar bendir til þess að ekki sé á vísan að róa með eitt eða neitt um framhald málsins. Jafnvel þótt nú liggi fyrir að hæstv. umhverfisráðherra muni staðfesta skipulagið er nauðsynlegt að taka af skarið um stefnu ríkisstjórnarinnar og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um stefna Vinstri grænna og hvaða augum þeir líti möguleikann á nýtingu orkunnar í neðri hluta Þjórsár. Eitt er að staðfesta skipulagið, annað að fara út í framkvæmdir með stuðningi stjórnarflokkanna og grípa þau tækifæri sem til staðar eru.

Við höfum líka dæmi frá síðasta ári í tengslum við Magma-málið og HS Orku þar sem lögin eru í sjálfu sér alveg skýr en stefna ríkisstjórnarinnar er allt önnur og hún hefur þvælst fyrir. Jafnvel þótt menn hafi fengið niðurstöðu um að erlendir aðilar mættu fjárfesta í fyrirtækinu hefur ríkisstjórnin stigið fram og sagt: Það er ekki okkar vilji og við munum grípa þar inn í. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki útilokað eignarnám í því máli þannig að jafnvel þótt nú sé komin niðurstaða í Hæstarétti um skipulagið fyrir austan við neðri hluta Þjórsár brennur á okkur spurningin: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar til að orkan verði nýtt til að skapa verðmæti, (Forseti hringir.) búa til ný störf og laða hingað heim fjárfestingu?