139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

lög um gerð aðalskipulags.

[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Nei, frú forseti, umhverfisráðherra nýtur fyllsta stuðnings og trausts míns og ég fagna því að loksins sé kominn umhverfisráðherra sem gerir það sem góður umhverfisráðherra á að gera, (Gripið fram í.) að standa vörð um náttúruna og vilja móta áherslur sjálfbærrar þróunar og nútímalegra áherslna í umhverfismálum. Ég held að menn ættu að gæta sín þegar þeir tala eins og raddir aftan úr forneskju eins og mér finnst stundum heyrast hér.

Áherslur okkar í atvinnumálum taka einmitt útgangspunkt í því. Við viljum móta framtíðaruppbyggingu á grundvelli fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar. Hefur Framsóknarflokkurinn heyrt um það hugtak? (Gripið fram í.) Vilja ekki ýmsir hér inni, frammíkallendur og fleiri, ættu þeir ekki bara að fara á námskeið í því hvernig menn í nútímanum umgangast þessa hluti, rétt almennings sem við ætlum að tryggja með innleiðingu Árósasamningsins og koma Íslandi inn í nútímann að þessu leyti? Það er hollt og gott fyrir okkur að hafa umhverfisráðherra sem gerir það sem góður umhverfisráðherra á að gera, (Forseti hringir.) að standa vörð um náttúruna og innleiða sjálfbæra þróun.