139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

skuldamál fyrirtækja.

[15:23]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það er staðreynd að bráðum eru liðin tvö og hálft ár frá því að hrunið varð og þetta hefur gengið afar hægt svo ekki sé meira sagt. Ég skil það svo að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segi að þessu verkefni skuli vera lokið 1. júní nk. og þá sé búið að ná utan um þetta gagnvart meðalstórum og smærri lífvænlegu fyrirtækjum.

Ef tafir verða vegna dómsúrlausna eða slíkra hluta þá bendi ég á að í þinginu liggur fyrir frumvarp frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að ryðja skuli slíkum hindrunum úr vegi. Ég bendi því á að það væri kannski ráð fyrir okkur að taka það til afgreiðslu.

Hitt er síðan að viðskiptaumhverfi í landinu er mjög óheilbrigt þegar bankarnir eru enn þá með svona mörg fyrirtæki á markaði sem eru að keppa við þau fáu fyrirtæki sem enn eru í einkaeigu. Ég vil benda hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á það að hann einbeiti sér að því að reyna að leysa úr þessum vandræðum. Ég held að við verðum að fara að ræða það mjög alvarlega hvort við þurfum ekki að finna leiðir til (Forseti hringir.) efla hér kauphallarstarfsemi að nýju.