139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

þyrlur Landhelgisgæslunnar.

[15:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Stefnt hefur verið að því að hafa jafnan þrjár þyrlur til taks. Út frá því hefur verið unnið en því miður er reyndin sú að þær hafa aðeins verið tvær. Síðan er það rétt sem hv. þingmaður segir að það stefnir í að við þurfum að taka aðra þyrluna í yfirferð sem tekur tvo, þrjá mánuði á næsta hausti.

Ég átti fund í morgun með forstjóra Landhelgisgæslunnar um þessi mál og við erum að fara yfir þau innan ráðuneytisins og munum að sjálfsögðu reyna að búa svo um hnúta að hér verði jafnan að lágmarki tvær þyrlur til staðar.