139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

Íbúðalánasjóður og skuldavandi heimilanna.

[15:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Okkur hefur í þessum sal orðið tíðrætt um skuldavanda heimilanna, hann er margræddur. Menn hafa rætt um fjármálastofnanir og aðkomu þeirra og sent þeim tóninn vegna slælegrar ákvarðanatöku og tímaframvindu hvað þetta varðar.

Mér er spurn: Hvar hefur ríkisstjórnin verið stödd í allri þessari umræðu? Það kemur í ljós að Íbúðalánasjóð — sem er þó undir ríkisstjórninni, undir hæstv. velferðarráðherra, og er einn af stóru þáttunum í lánakerfi íslenskra heimila — skortir lagaúrræði til að fara að þeim línum sem ríkisstjórnin hefur lagt í skuldavanda heimilanna. Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því enn einu sinni að hafa ekki unnið heimavinnuna sína, m.a. hvað varðar þau úrræði sem hún hefur lagt til og rætt um við fjármálastofnanir, t.d. hina svokölluðu 110%-leið.

Frú forseti. Við erum búin að ræða þessi mál í á annað ár. Núna ætlar hæstv. ríkisstjórn að vakna og fara að vinna heimavinnuna sína. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra, sem er nýkominn inn í stjórnina: Hvenær hyggst hann, sem yfirmaður Íbúðalánasjóðs, leggja fram breytingu á lögum til að Íbúðalánasjóður geti tekið þátt í þeim úrræðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt til að gripið verði til varðandi skuldavanda heimilanna?