139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

Íbúðalánasjóður og skuldavandi heimilanna.

[15:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Ég hélt að það hefði komið fram, ef menn hefðu fylgst með, að þegar samkomulag var gert í desembermánuði, um úrlausnir í skuldavanda heimilanna, og 110%-leiðin var farin, hafi það legið fyrir að lagagrundvöllur væri fullnægjandi fyrir þátttöku Íbúðalánasjóðs. Þegar farið var að vinna frekar með verklagsreglurnar sem vísað var til óskuðu bankarnir eftir því að fella niður 20% tekjuviðmiðið í sambandi við 110%-leiðina og gera ákveðnar breytingar á útfærslunni. Við það kom í ljós að til að vera örugg með lagalega stöðu Íbúðalánasjóðs þyrfti að styrkja lagarammann. Það frumvarp liggur fyrir. Kostnaðarmat er bara rétt ókomið. Það verður þó að halda þannig utan um þetta mál að kostnaðarmatið eða yfirlýsingarnar komi ekki öðruvísi en það verði tilkynnt í Kauphöll, þetta er bara úrvinnsluatriði sem verður leyst á næstu dögum.

Það þarf að láta það fylgja með að þetta tefur í engu framkvæmdina á þessu vegna þess að menn ætla að kalla eftir umsóknum og það liggur fyrir að það er þegar byrjað. Bankarnir hafa líka verið að vinna sína vinnu og ég held að þessir aðilar geti allir fylgst að og áfram verði miðað við að þessari úrvinnslu verði lokið fyrir sumarið, þ.e. að umsóknir þurfi að berast í júnímánuði í síðasta lagi og þá eigi úrvinnslan hjá flestum aðilum að liggja fyrir. Eitthvað af því sem kemur á síðustu stundu dregst eitthvað fram á sumarið. Þetta á því í sjálfu sér ekki að tefja málið mikið. Það skiptir mjög miklu máli að þarna á að ganga heldur lengra en áætlað var í upphafi. Það er ástæðan fyrir því að viðbótarlagagrunn vantar, en ekki það að menn hafi ekki staðið við það samkomulag sem kom fram í desember.