139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

Íbúðalánasjóður og skuldavandi heimilanna.

[15:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir svörin. Mér finnst hins vegar alltaf miður þegar ráðherrar beina í svörum sínum þeim tóni til þingmanna að þeir hafi ekki fylgst með og viti ekki um hvað málin snúast. Ég sætti mig ekki við það og allra síst af hálfu hæstv. velferðarráðherra sem er reyndur skólamaður og veit að margur annar fylgist ágætlega með.

Mig langar í framhaldinu að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort samhliða þessum lögum um breytingu, eins og til er greint vegna 110%-leiðarinnar, komi þá jafnframt inn í þingið frumvarp til laga sem breytir viðmiði um eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs og þá hvenær Alþingi þurfi að leggja til aukið fjármagn til að Íbúðalánasjóður geti í raun starfað.