139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma, ráðherraábyrgð.

[15:38]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að beina því til hæstv. forseta hvort hún gæti dreift ábendingu og minnisblaði til þingmanna varðandi ráðherraábyrgð. Það er nefnilega þannig að þann 28. september sl. greiddi meiri hluti Alþingis atkvæði gegn því að ráðherrar á Íslandi ættu að bera ábyrgð á gerðum sínum, þar á meðal formaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði um ráðherraábyrgð áðan. Þar var þremur ráðherrum bjargað, ekki frá lögum heldur var komið í veg fyrir að málefni þeirra fengju umfjöllun fyrir þeim dómstóli sem viðeigandi er. Einn ráðherra lenti í snörunni en nú hefur forsætisráðuneytið og forsætisráðherra ákveðið að hafna því að saksóknari fái rannsóknargögn málsins þannig að kannski er ekki neins annars að vænta en allir fjórir ráðherrarnir sleppi. En þannig er staðan á ráðherraábyrgð á Íslandi í dag og hún mun ekki breytast á þessu kjörtímabili, ekki meðan þessir þingmenn (Forseti hringir.) sitja. Og það er tómt mál að tala um ráðherraábyrgð (Forseti hringir.) í því tilviki.