139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[15:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Það er mikilvægt að muna það að verðtrygging á Íslandi var á sínum tíma viðbragð við séríslenskum aðstæðum, veikum gjaldmiðli, mikilli verðbólgu og miklum óstöðugleika í efnahagsumhverfi. Það ekkert framboð á lánsfé til lengri tíma (Gripið fram í: Og ekkert …) og sá bakgrunnur var orsökin fyrir því að menn fóru þá leið að verðtryggja fjárskuldbindingar í lok áttunda áratugarins.

Það er oft talað um ókosti verðtryggingarinnar en ekki má gleyma kostum hennar. Vegna verðtryggingarinnar er aðgangur almennings að lánsfé til langs tíma tryggður sem ella væri mjög erfitt í jafnsveiflukenndu hagkerfi og hinu íslenska með stöðugum vöxtum. Við höfum tryggða jákvæða vexti á sparnaði öfugt við það sem við upplifðum hér um áratugi þegar sparifé fólks brann á verðbólgubáli. Við höfum líka náð að byggja upp verðtryggð réttindi í lífeyriskerfi sem skipta okkur öll miklu máli.

Sú gagnrýni hefur líka verið sett fram á verðtrygginguna að hún dragi úr miðlunarkerfi peningamálastefnunnar, með öðrum orðum sé hún vandamál út frá þeim tækjum sem Seðlabankinn hefur tiltæk til að ná verðbólgumarkmiði. Það er þess vegna mjög athyglisvert að Seðlabankinn telur í nýrri skýrslu sinni, Peningastefnan eftir höft, sem kom út rétt fyrir jól að þessi vandi sé ekki umtalsverður og að ekki sé ástæða til að afnema verðtrygginguna hans vegna.

Hv. þingmaður vakti máls á því í upphafi hvort núna væri tækifæri til að afnema verðtryggingu, hvort núna væru þær aðstæður að það væri sérstaklega heppilegt að afnema verðtryggingu. Vissulega má segja að við þær aðstæður sem við lifum núna þegar umtalsverð óvissa er um framtíðarþróun og við horfum fram til þess að reyna að létta af gjaldeyrishöftum blasi við sú hætta að afléttingu hafta fylgi umtalsverð veiking á gengi krónunnar og þar með hækkun verðtryggðra skulda. Út frá því sjónarmiði er alveg rétt að afnám verðtryggingarinnar á þessum tímapunkti væri heppilegt. Á móti er hins vegar vert að hafa í huga að ef slík verðbólgudýfa mundi ríða yfir, ef haftaáætlunin sæktist verr en gert var ráð fyrir í upphafi, má reikna með að nafnvextir hækki í takt við verðbólguna og greiðslubyrði hinna óverðtryggðu húsnæðislána yrði nánast óbærileg. Þá má ekki gleyma að einn meginkostur verðtryggingarinnar er þrátt fyrir allt að hún jafnar út greiðslubyrði vegna verðbólguskots yfir allan lánstímann. Ef mikið verðbólguskot verður á skömmum tíma er hætt við að greiðslubyrði í háu nafnvaxtaumhverfi yrði óbærileg fyrir mikinn fjölda fólks.

Við lifum óvissa tíma og fjöldamörg atriði eru enn háð óvissu, framtíðarpeningamálastefnan, afnám gjaldeyrishaftanna og hið nýendurreista fjármálakerfi sem auðvitað er að stíga sín fyrstu spor. Margt bendir til þess að ákjósanlegt sé að draga sem kostur er úr óvissu og verðtryggingin er vissulega liður í því að draga úr óvissuþáttum. Það verður líka að hafa í huga að jafnvel þótt við afnæmum hana við þær óvissuhorfur sem núna eru er mjög líklegt að við tæki þá verðbólguálag. Miðað við verðbólgusögu Íslands og reynslu Íslands af glímunni við verðbólgu er ekki líklegt að það verðbólguálag yrði lágt. Þá veltir maður fyrir sér hver hagur almennings yrði þegar upp væri staðið.

Sú nefnd sem starfar undir forustu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur vinnur að mati á verðtryggingunni og ég vonast til að sjá niðurstöður hennar fljótlega. Öll þau atriði sem ég hef rakið og hv. þingmaður rakti í upphafi þarf auðvitað að vega og meta og ég treysti því að niðurstaða nefndarinnar varpi nokkru ljósi á þessa þætti því að verðtrygging fjárskuldbindinga er nokkuð sem við vildum helst vera án ef þess væri nokkur kostur.