139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[16:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er oft búið að ræða verðtryggingu úr þessum stól og í þessum sal, hvort hún eigi að vera eða hvort hún eigi að fara. Það virðist sem flestir séu sammála því þegar dregur að kosningum, að verðtrygging sé af hinu vonda, það sé rétt að bjarga heimilum og skuldurum undan þessum vágesti. Eins og komið hefur skýrt fram hjá hæstv. ráðherra er verðtryggingin að sjálfsögðu varnarvopn þeirra sem lána fjármuni. Ætlum við enn og aftur að hunsa það tækifæri að afnema verðtrygginguna til að bjarga fjármagnseigendunum, til að bjarga þeim sem lána fjármuni vegna þess að þeir eru á móti því að afnema verðtrygginguna?

Það er athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan að þegar 550 milljörðum er bætt við lán heimilanna frá bankahruninu þá getum við þingmenn ekki staðið hér og varið verðtrygginguna, varið liði og þætti sem eru — ég ætla ekki að nota stóra orðið — að keyra heimilin smátt og smátt í þrot. Að sjálfsögðu þurfum við að leiðrétta lán heimilanna eins og margir hafa talað um og að sjálfsögðu getum við ekki afnumið gjaldeyrishöftin nema taka á verðtryggingunni um leið. Miðað við reynslu annarra vitum við hvert kostnaðinum verður velt.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að breyta um kúrs í þessu máli og leggjast á árar með okkur sem viljum afnema verðtrygginguna, hvort sem það er gert í einu vetfangi samhliða því að gjaldeyrishöftin eru tekin af eða í áföngum með því að binda hana við ákveðið þak eins og lagt hefur verið fram í þinginu. Hvað sem því líður þarf að taka af skarið í þessu máli og ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferðarstjórn hlýtur að hafa frumkvæðið að því.