139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[16:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum afnám verðtryggingar, forsendur fyrir afnámi hennar þurfa að vera til staðar. Þær aðstæður eru að skapast um þessar mundir þegar verðbólga er sáralítil og gengi krónunnar að styrkjast. Afleiðingarnar eru að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur lækkað hjá lántakendum. Þetta eru mikil tíðindi í fyrsta sinn um langt árabil. Í gegnum árin hefur vandinn verið viðvarandi verðbólga í landinu. Engin fjármálastofnun hefur verið tilbúin að lána til lengri tíma nema með verðtryggingu eða breytilegum vöxtum til að tryggja að verðgildi peninganna skili sér til baka. Fyrir tíma verðtryggingar voru almennir lífeyrissjóðir óvarðir fyrir verðgildisrýrnun og lífeyrir og sparifé almennings brann upp í óðaverðbólgu. Þá var gripið til þess ráðs að verðtryggja sparnað til lengri tíma, svo sem lífeyri landsmanna í lífeyrissjóðum. Við núverandi aðstæður er mögulegt að stíga skref í þá átt að afnema verðtryggingu. Það er hægt að gera í áföngum með því að fjármálastofnanir bjóði líka óverðtryggð lán til langs tíma á vaxtakjörum sem eru samkeppnisfær við vexti verðtryggðra lána.

Ríkissjóður hefur sýnt gott fordæmi með því að fjármagna sig í skuldabréfaútgáfu á óverðtryggðum skuldabréfum á föstum vöxtum. Það útboð gekk vel. Grundvöllur þess að hægt sé að afnema verðtryggingu í áföngum er að okkur takist að skapa til langs tíma stöðugleika í efnahagsstjórn, með lítilli verðbólgu og lækkandi vöxtum. Við erum á þeirri vegferð. Hafa ber í huga að tryggja þarf að lífeyrissparnaður landsmanna haldi verðgildi sínu og ávaxtist eðlilega svo hvati til almenns sparnaðar verði áfram til staðar.