139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Fyrirspurn sú sem hér er flutt tengist Þjóðhagsstofnun sem eitt sinn var til, stofnuð 1974, og átti þá, með leyfi forseta, „að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum“. Sú Þjóðhagsstofnun var til í rúman aldarfjórðung og vann verk sín undir forustu þriggja forstjóra eða forstöðumanna sem við þekkjum. Er reyndar einn þeirra nýlátinn og er harmdauði þeim sem hann þekktu og af honum vissu.

Okkur er líka öllum kunnugt um það að hún var lögð niður með dramatískum hætti árið 2002. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, stóð fyrir því. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að rekja ástæður þess sem þá voru nefndar en þeir sem áttu að sinna hlutverki þessarar stofnunar voru, auk Hagstofunnar og annarra opinberra stofnana, m.a. greiningardeildir bankanna og er það held ég einhver hrapallegasta niðurstaða sem sá forsætisráðherra gat komist að um það efni. Greiningardeildir bankanna voru einmitt eitt af því sem brást hvað verst í hruninu.

Það hjálpaði auðvitað ekki til á þeim brjálunartíma að engin hagstofnun var til á Íslandi sem var hægt að kalla sæmilega sjálfstæða og sæmilega öfluga. Greiningardeildirnar voru eins og þær voru. Þær hagstofnanir sem voru innan dyra í fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum og unnu á vegum stjórnvalda brugðust líka eins og við munum.

Þess vegna fögnuðu margir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 2. september í haust, við breytingar sem þá voru gerðar á stjórninni, að þar var gefinn út svolítill listi. 16. atriðið á þeim lista var það fyrirheit að stofnun þjóðhagsstofnunar yrði könnuð. Þó að menn geri sér grein fyrir því að ný þjóðhagsstofnun verði ekki fjölmennur vinnustaður í byrjun er mikilvægt að þetta verkefni fari sem fyrst af stað og að það yrði tákn um breytta tíma á landinu.

Fyrirspurnin lýtur að því hvað þessari vinnu líði, hvaða hugmyndir séu um verksvið hinnar nýju stofnunar, um yfirstjórn hennar og tryggingu fyrir því að hún verði sjálfstæð og geti gegnt hlutverki sínu fyrir land og þjóð með þeim hætti.