139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að vara við því að það hlutverk sem hér er verið að ræða um og hæstv. forsætisráðherra vísaði réttilega í í skýrslu þingmannanefndarinnar verði falið einhverri annarri stofnun sem þá tilheyrir framkvæmdarvaldinu. Það er mjög mikilvægt að Alþingi fái í hendurnar einhvers konar tæki sem yrði hugsað eins og þjóðhagsstofnun til að hafa ráðgjöf og eftirlit með framkvæmdarvaldinu, eftirlit með því sem framkvæmdarvaldið leggur til í efnahagsmálum og öðru slíku.

Það sama vil ég segja, og nota þetta tækifæri, til þess að leggja áherslu á löggjafarþátt Alþingis. Við þurfum líka að fá hér öflugra — við erum með ágætlega gott starfsfólk sem vinnur fyrir okkur — en ég vil benda á að fyrir þinginu liggur frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis. Þetta tvennt þarf mjög að ná fram svo Alþingi geti starfrækt betur hlutverk sitt.