139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Marðar Árnasonar sem og fyrra svari hæstv. forsætisráðherra þar sem hún vitnar í skýrslu þingmannanefndarinnar.

Ég held að það sé vert umhugsunar fyrir fjárlaganefnd sem vinnur að fjárlögum fyrir íslenska ríkið ár hvert, sem er í raun og veru stefnumarkandi plagg hverrar ríkisstjórnar fyrir land og þjóð, að verði sett á laggirnar einhvers konar þjóðhagsstofnun sé hún þar sem fjárlaganefnd og þeir sem þar vinna hafi sem mestan og bestan aðgang að slíkri ráðgjöf. Eins og ég segi eru fjárlögin stefnumótandi plagg hverrar ríkisstjórnar og þar ætti spáin fyrst og síðast að koma fram.