139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt umræða sem hér hefur farið fram. Það hefur ekki farið fram hjá mér að þingmenn vilja að til sé efnahagsstofnun eða þjóðhagsstofnun innan Alþingis eða alla vega undir stjórn þess. Mér kemur það ekki á óvart vegna þess að sem óbreyttur þingmaður kallaði ég mjög eftir hagdeild við Alþingi ekki síður en við hefðum lögfræðideild, að það væri ákveðið hagfræðisvið þar. Það hlaut ekki hljómgrunn þá þannig að ég skil vel vilja alþingismanna til að þetta verði skoðað.

Ég tel brýnt að ákveðin samvinna sé milli stjórnvalda, milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, um það hvernig þetta verður gert. Í þessari ályktun frá því í september, sem vitnað er í, kom fram að ríkisstjórnin vildi skoða stofnun þjóðhagsstofnunar, lengra var ekki gengið. Ef það er vilji Alþingis að hafa með höndum slíka þjóðhagsstofnun og stjórn hennar er sjálfsagt að skoða það. Það er bara spurning hvaða leiðir er best að fara í þessu máli. Sé vilji fyrir því að þjóðhagsstofnun verði stofnuð þá er það spurning hvort hún verður undir stjórn framkvæmdarvaldsins eða löggjafarvaldsins.

Varðandi fyrirspurn hv. 5. þm. Suðvest. er bara alls ekki tímabært að svara henni. Við erum það stutt á veg komin með þetta, það er nýfarið að skoða þetta. Hv. þingmaður nefndi ASÍ en það var SA sem ekki fékk síður mikla fjármuni þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður. En ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er mikil eftirsjá að Þjóðhagsstofnun og því starfi sem hún vann fyrir efnahagskerfið.