139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

fundarstjórn.

[16:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil að gefnu tilefni lýsa yfir eindreginni ánægju með fundarstjórn forseta. Ég þakka þingflokksformanni mínum, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir þær upplýsingar sem hún hefur lagt fram. Hið fræga „þetta mál“ var sum sé alls ekki rætt á fundi forseta með þingflokksformönnum heldur víðfræg og alkunn orðsnilld Steingríms Jóhanns Sigfússonar sem ég hef horft til og hlustað á í nokkra áratugi og tel fulla ástæðu til að ræða og greina og breiða út. Kannski fáum við tækifæri til þess á morgun á sama hátt og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er enn að melta þau kynni sem hann nýlega hefur haft af þeirri sömu orðsnilld.