139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[16:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er rétt að árið 2008 samþykkti Alþingi eftir mikla þverpólitíska vinnu — það er varla að maður taki sér orðin „faglega vinnu“ í munn því að orðið „faglegt“ er orðið svolítið útjaskað — en engu að síður var það þannig að helstu fagaðilar í greininni höfðu komið að því að semja heildarlöggjöf um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Það var líka rætt um kennaramenntun, tekið á henni, þannig að þetta var heildstæð nálgun þingsins. Það eina sem eftir stóð var að þingið ætlaði að taka á framhaldsmenntun sem það gerði síðar.

Þá var mikil samstaða um þessi mál hér á þinginu og að mínu mati til mikillar fyrirmyndar hvernig hver flokkur kom að málinu. Menn höfðu til að mynda með ákveðnum hætti tekið þátt í starfsnámsskýrslunni svonefndu sem menn skiluðu af sér 2006 — framhaldsskólafrumvarpið og lögin byggja meðal annars á þeirri skýrslu. Samstaðan var mikil og mig minnir að á sínum tíma væru einu markverðu breytingartillögurnar tillögur Vinstri grænna um að auka útgjöld hins opinbera með því að binda í lög ókeypis skólamáltíðir. Það var síðan fellt. En þetta var í rauninni eina tillagan til breytinga.

Hver var umræðan? Núverandi hæstv. menntamálaráðherra talaði eins og flestir gerðu á sínum tíma hér í þinginu, þ.e. menn fögnuðu því sérstaklega að þarna væri verið að taka í gegnum framhaldsskólalögin á iðn- og starfsnámi, verið væri að taka á sveigjanlegum skólaskilum, litið væri á skólakerfið sem eina heild, verið væri að efla kennaramenntun sem mundi m.a. koma í ljós í niðurstöðum PISA-kannana og lykilatriðið var að vinna gegn brottfalli sem hefur verið gríðarlega mikið hér á Íslandi.

Umræðan í dag varðandi iðn- og starfsnám og brottfall er gamalkunnug og ég lít svo á að við höfum öll tæki og tól til að taka á nákvæmlega þeim viðfangsefnum og vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Alveg eins og Alþingi ber ábyrgð á þeirri löggjöf sem frá því kemur er það framkvæmdarvaldsins að fylgja henni eftir. Ég vil því beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra þar sem ég tel ákveðna brotalöm á því hvað varðar framkvæmd á skólalöggjöfinni, þ.e. að fylgja eftir þeirri markvissu stefnu sem allt þingið tók og samþykkti og vann að á sínum tíma — og hafði þau mikilvægu markmið að efla iðnnám, efla starfsnám, auka sveigjanleika í skólakerfinu þannig að flæðið yrði meira, og auka möguleikana á því að fjölga stúdentum, nemendum með stúdentspróf, með styttra nám að baki en fjögur ár.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra um sveigjanlegu skólaskilin: Er stefnt að því núna, miðað við bæði fréttir og það sem maður er að lesa, að draga úr samfellu milli skólastiga? Ef það er gert er í rauninni verið að fara gegn jafnrétti til náms. Ég ætla ekki að segja að það sé að verða klassískt að ráðherrar Vinstri grænna brjóti lög en ég vil engu að síður vekja athygli á því að mjög er dregið úr sveigjanlegum skólaskilum miðað við það sem segir nákvæmlega í lögum. Ég vil spyrja ráðherra sérstaklega að þessu.

Í öðru lagi vil ég spyrja ráðherra um iðnnámið. Það er rétt að vekja athygli á því að það eru um 87 námsbrautir á vegum skólakerfisins og því er ekki hægt að segja að valfrelsi sé af skornum skammti. Það var farið í að draga úr miðstýringu, það var farið í að auka nákvæmlega það sem atvinnulífið er í dag að kalla eftir — ég veit ekki hvar þeir hafa verið. Það var farið í það með sameiningu Iðnskólans og Fjöltækniskólans að koma skólunum út til atvinnulífsins þannig að atvinnulífið sjálft gæti haft puttann á púlsinum varðandi mótun iðnnáms.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, því að að mínu mati hefur hún öll þessi tæki til að efla iðnnámið, hvað hún ætli að gera. Hún hefur talað fyrir því að efla nám í iðn- og verkgreinum. Við sjáum t.d. fram á að verið er að höggva í tilraunaverkefni í Háteigsskóla, þar sem val unglinga er m.a. fólgið í því að heimsækja Tækniskólann og kynnast öllum þeim frábæru greinum sem þar eru í boði, m.a. með ákvörðun ráðherra. Í aðra röndina er því verið að tala um að efla þessa fjölbreytni, efla iðnnámið, en um leið er verið að draga úr þeim möguleika.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í þriðja lagi varðandi sérkennslu. Samkvæmt því eftirliti sem viðhaft hefur verið vitum við að sérkennsla í leikskólum er með mikilli prýði en hún er mjög ógagnsæ í grunn- og framhaldsskólum.

Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið hafi farið yfir þær aðgerðir sem sveitarfélögin standa nú fyrir varðandi hagræðingu. Hvað hefur ráðuneytið gert til þess að fylgjast með þannig að réttindi barna verði ekki skert á þessum hagræðingartímum varðandi menntun og aðgang að menntun?

Í fimmta lagi, og það er kannski efni í aðra utandagskrárumræðu, (Forseti hringir.) spyr ég: Hvað hefur ráðherra gert varðandi þá skóla sem vilja bjóða upp á möguleika á styttri námstíma til stúdentsprófs? (Forseti hringir.) Hvað hefur hæstv. ráðherra gert í því að fjölga þeim skólum sem útskrifa (Forseti hringir.) stúdenta á styttri tíma en fjórum árum?