139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[16:56]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum framkvæmd skólalaganna frá 2008. Fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra áðan að framkvæmdin hefur gengið vel á lægri skólastigunum en vegna mikils kostnaðar við gildistöku framhaldsskólalaganna hefur einstökum ákvæðum þeirra verið frestað. Það er auðvitað skítt en þar er bankahruninu um að kenna sem hefur knúið stjórnvöld til að skera niður útgjöld á öllum sviðum þó að framhaldsskólarnir hafi reyndar fengið þar vægari niðurskurð en flestar stofnanir hins opinbera.

Ég vil líka segja að ég tel að við séum komin að þolmörkum niðurskurðar í menntakerfinu og að við eigum að snúa þessari þróun við á þessu ári og gera þar með það sem stjórnvöld hafa kannski á flestum tímum vanrækt, að forgangsraða með framtíðarhagsmuni samfélagsins í huga. Við eigum að efla menntun sem leiðina út úr atvinnuleysi, sem árangursríkustu leiðina til að styrkja það unga fólk sem nú mælir göturnar í 15% atvinnuleysi. Það er sláandi og það er átakanlegt að við höfum varið nærri 70 milljörðum kr. í atvinnuleysisbætur á undanförnum þremur árum án þess að leysa þann vanda sem við blasir 13.000–15.000 atvinnuleitendum í samfélaginu. Það er engin vafi á að lausnin á atvinnuvanda unga fólksins sérstaklega er óvenju einföld, óvenju skýr — hún er menntun. Við sáum það á því að 75% atvinnuleitenda á aldrinum 16–24 ára hafa eingöngu grunnskólapróf.

En ekki er nóg að setja peninga í menntun, við þurfum að verja þeim þannig að þeir skili mestum árangri. Því miður benda ýmsar staðreyndir til þess að okkur hafi borið af leið í áherslum okkar á undanförnum árum, 40% brottfall eða því sem næst í framhaldsskólakerfi okkar. Við verjum hæsta hlutfalli fjármagnsins í lægri skólastigin ólíkt OECD og margfalt færri leggja stund á starfsnám í okkar kerfi en í löndunum í kringum okkur.

Ég er sannfærður um að lykillinn að árangri felst í því að við samþættum miklu betur en við höfum gert menntastefnuna og atvinnustefnuna, þannig að menntastefnan verði órjúfanlegur hluti af atvinnustefnu framtíðarinnar og þar er áhersla á iðnnám, á starfsnám, lykillinn að árangri í framtíðinni.