139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[17:03]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum framkvæmd skólalöggjafar frá 2008. Þá voru samþykkt ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla í þverpólitískri sátt. Talsverðar breytingar voru gerðar á skipulagi, innihaldi og niðurröðun skólastarfs frá því sem áður var í þessum lagabálki. Innleiðing laga um leik- og grunnskóla er í fullum gangi. Sveitarfélögin sjá um framkvæmd og ráðuneyti menntamála um eftirfylgd og eftirlit. Ýmislegt hefur verið gert til að fylgjast með hvernig til hefur tekist, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Námskrárvinna er á lokastigi í góðri sátt. Óöryggi vegna þessara lagabreytinga á grunn- og leikskólum virðist vera á undanhaldi, enda málið unnið í ágætri sátt allra aðila.

Lög um framhaldsskóla frá 2008 fólu í sér miklar breytingar frá fyrra kerfi, en skólunum var gefinn ágætistími til að semja námskrá í takt við sérstöðu sína og áherslur. Sá tími hefur nú verið rýmkaður enn frekar vegna efnahagsástandsins sem getur haft bæði kosti og galla. Auðvitað er gott að skólar geti vandað breytingarferli sitt sem allra mest en ég er hrædd um að of langur tími gæti orðið til þess að enn erfiðara yrði að koma breytingum á.

Það sem skiptir mestu máli í löggjöf um skóla er að skapa umgjörð um samfellt skólastarf hvers einstaklings miðað við þarfir, styrkleika og áhugasvið viðkomandi. Þessi samfella er að mínu viti afar mikilvægur þáttur sem þarf að hyggja sérstaklega að í ljósi þess að lagaákvæði taka gildi á mismunandi tímum. Speglast t.d. ekki örugglega fyrirhugaðar breytingar á byrjunarnámi í grunngreinum, eins og stærðfræði og íslensku, í framhaldsskólum á lokaspretti nemenda í grunnskólanum í sömu greinum? Er ekki örugglega verið að undirbyggja þessar breytingar faglega og markvisst?

Samfella skiptir miklu máli en hún snýst ekki bara um að undirbúa nemanda fyrir nám á næsta skólastigi, hún snýst ekki síður um að á efra stigi sé leitað upplýsinga um nemandann og nám hans fram að því að hann verður hluti af nýjum skóla og nýju skólastigi. Skólinn er nefnilega fyrst og síðast fyrir nemendur.