139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[17:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Margt gott hefur hér komið fram og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir umræðuna. Hins vegar liggur líka fyrir að mjög miklar breytingar hafa gengið í gegn í þessum framhaldsskólalögum. Nefna má að í þessari löggjöf var tekin upp fræðsluskylda. Hún var kannski ekki rædd sérstaklega en nú eiga sem sagt allir ólögráða nemendur rétt á skólavist í framhaldsskóla, sem eru ótvíræð nýmæli og í sjálfu sér merkilegt að sjá að framhaldsskólarnir hafi staðist það próf. Það hefur gengið eftir að uppfylla þessa mjög svo mikilvægu lögbundnu skyldu. Við gerðum könnun á stöðu innleiðingar laganna í framhaldsskólum árið 2009, gerðum könnun eftir það ár. Það má segja að sú könnun hafi sýnt að skólarnir hafi lagað starfsemi sína að kröfum laganna í öllum meginatriðum.

Ákveðin atriði var hins vegar ekki búið að semja um í kjarasamningum kennara. Ég nefni lengingu skólaárs og upptöku nýrra eininga eða framhaldsskólaeininga. Það liggur fyrir að þeir kjarasamningar sem fóru í gegn í tilraunaskólunum kölluðu á veruleg kostnaðarútlát á þessu sviði. Það er mál sem ég lít svo á að við þurfum að vinna að hægt og bítandi. Þess vegna hef ég lagt það til hér í þinginu og fengið samþykkt að við gerum þetta á lengri tíma. Ég held að það sé mikilvægt. Um það náðist ákveðin sátt líka. Ég held að það skipti máli að við höldum áfram að vinna að þessu.

Ég minni á að námskrárnar eiga að vera tilbúnar á þessu ári. Við sjáum sannarlega að fólk og fagfólk í skólunum nýtir sér þá möguleika sem í því felast að skapa fjölbreytni og óvæntar tengingar sem voru kannski ekki fyrir hendi í hinu fyrra kerfi.

Að lokum vil ég segja, af því hv. málshefjandi nefndi sérstaklega námskrár og val, að það er rétt að mjög hefur verið kallað eftir því núna í umræðu um menntamál að taka sérstaklega tillit til siðfræðikennslu í grunnskólum. Það hefur til að mynda verið rætt hér í þinginu og er komin fram þingsályktunartillaga um það. (Gripið fram í.) Og (Forseti hringir.) eitt af því sem hefur verið rætt er að þriðjungur náms á gagnfræðastigi sé valkvæður með öllu. Þetta er eitt af því sem er í skoðun og hvernig nákvæmlega eigi að skapa rými fyrir það. Það er ekki mikið rými til að taka af móðurmálskennslu, (Forseti hringir.) raunvísindakennslu eða náttúruvísindakennslu. (Forseti hringir.) Ekkert hefur hins vegar verið gefið út um þetta, en það liggur fyrir. Ef rými á að skapast fyrir nýjar námsgreinar (Forseti hringir.) er erfitt um vik að taka af öðrum.