139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég geri alvarlega athugasemd við það hvernig hæstv. forseti stýrir þessum fundi. Mér finnst ekki sæmandi þegar við tölum um virðingu Alþingis að hingað upp komi þingmenn í hrönnum, sérstaklega úr röðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og séu með ávirðingar gagnvart fólki úti í bæ sem getur ekki svarað fyrir sig á þessum vettvangi.

Hér hafa ítrekað komið fram ávirðingar á hendur sveitarstjórnarfólki í ákveðnum sveitarfélögum. Fólkið er ekki hér en það er kannski að horfa á þennan málflutning í sjónvarpinu. Finnst mönnum það virkilega í lagi að þingmenn komi hér upp og beri svo alvarlegar sakir sem raun ber vitni á sveitarstjórnarmenn í landinu? Það hæfir ekki virðingu þingsins. Það væri nær að kalla viðkomandi aðila á fundi þingnefndar til að fara yfir málin frekar en að ráðast svona á viðkomandi. Þetta er þinginu ekki til sóma.