139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hvet virðulegan forseta til að gæta jafnræðis gagnvart þingmönnum óháð því úr hvaða flokkum þeir koma.

Við höfum svo sem séð að fulltrúar ríkisvaldsins, framkvæmdarvaldsins, telja ekki endilega að allir eigi að vera jafnir gagnvart lögum, sumir megi meira en aðrir. Hér í þinginu finnst mér algjört grundvallaratriði að virðulegur forseti gæti a.m.k. jafnréttis gagnvart þingmönnum.

Hvað eftir annað höfum við séð þingmenn stjórnarliðsins koma upp með alvarlegar ásakanir í garð hinna og þessara og jafnvel fullyrðingar þess efnis að ráðherrar þurfi ekkert endilega að virða lög ef það hentar ekki í það skiptið. Þegar þingmenn Framsóknarflokksins — sérstaklega þeir, leyfi ég mér að segja — koma upp og gera athugasemdir við fundarstjórn forseta hefur forseti iðulega mikinn einleik á bjöllu. Ég held að forseti hljóti að muna eftir miklu tónverki, í 23 slögum, sem forseti spilaði þegar ég gerði eitt sinn athugasemd við fundarstjórn. Þessu verðum við vitni að aftur og aftur, sérstaklega gagnvart þingmönnum Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Hver er skýringin á þessu, virðulegur forseti?