139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim stuðningi sem kom fram undir þessum lið við þá tillögu mína að forseti beiti sér fyrir því að fram fari umræða um skýrslu þingmannanefndarinnar og þá tillögu sem þingheimur samþykkti hér, 63:0, og vonast til þess að tillagan fái brautargengi og komist á dagskrá hið fyrsta.

Um það þegar menn vísa til þess að í þeirri umræðu sé nauðsynlegt að fara yfir stjórnmálasögu landsins í víðu samhengi frá upphafi vega, langar mig að taka fram, frú forseti, að ég tel að við þurfum að læra af fortíðinni en við þurfum hins vegar að leyfa okkur að horfa til framtíðar og vera ekki föst í því að velta okkur endalaust upp úr því sem gerðist hér í gamla daga. Læra af því, já, en einbeita okkur að því að verða sjálf betri manneskjur, verða betri í því sem við gerum, tileinka okkur faglegri, gagnsærri, opnari og betri vinnubrögð í öllu sem við gerum. Ég tel að það eigi að vera grundvallartilgangur slíkrar umræðu en ekki að velta sér (Forseti hringir.) upp úr því hvað stjórnmálamenn fyrri alda og fyrri tímaskeiða gerðu hér í þinginu.