139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[14:54]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu langar mig að þakka málshefjanda fyrir að taka málið upp í þinginu og aukinheldur þakka fyrir alla þá gagnlegu umræðu sem farið hefur fram í samfélaginu í kjölfar dómsins sem gekk í máli Flóahrepps gegn ríkinu á fimmtudaginn var. Umræðan hefur auðvitað tekið á dómnum sjálfum, forsendum hans og niðurstöðu, þótt hún hafi á stundum verið fullmikið í upphrópanastíl, en einnig hefur umræðan beinst að samskiptum Landsvirkjunar við lítil sveitarfélög, samninga og greiðslur í tengslum við virkjanaáform og skipulag. Þessi umræða hefur verið mikilvæg vegna þess að hún tekur á ákveðnum grundvallaratriðum um réttaröryggi og almannahagsmuni. Hvernig eiga samskipti af þessu tagi að vera? Hvernig hafa þau verið hingað til?

Undanfarin missiri hefur líka verið tekið á því hvernig samskipti viðskiptalífsins og stjórnvalda eiga að vera. Um þetta var töluvert fjallað í margræddri rannsóknarskýrslu sem fjallaði sérstaklega um aðdraganda og orsakir bankahrunsins hér á landi. Í skýrslunni er einnig fjallað nokkuð um tengsl fjármálamarkaðarins við háskólana en ekki síður stjórnvöld. Í rannsóknarskýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Allt frá dögum Platons hafa stjórnspekingar varað við að hugsunarháttur og markmið viðskiptalífsins verði ráðandi þegar ákvarðanir eru teknar um almannahagsmuni.“

Og seinna:

„Hérlendis reyndu tvö hagsmunasamtök viðskiptalífsins, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu og þá umgjörð sem fjármálafyrirtækjum var búin. Ekki er hægt að segja annað en að þeim hafi orðið vel ágengt. Þau lögðu áherslu á að lagaumgjörð viðskiptalífsins væri ekki mjög íþyngjandi, stjórnsýslan væri einföld og skattar lækkaðir.“

Líklegt er að þessi sjónarmið hafi ekki einskorðast við viðskiptalífið heldur fleiri þætti íslensks samfélags í aðdraganda hrunsins.

Ríkisstjórnin gerði samþykkt í sumar sem leið þar sem ákveðið var að fara í sérstaka rannsókn á samskiptum orkufyrirtækja, stóriðjufyrirtækja, sveitarfélaga og ríkis í aðdraganda hrunsins. Mikilvægt er að varpa ljósi á þessa þætti þar sem sums staðar er um að ræða sömu öfl, sömu hagsmuni, sömu aðila, sömu áherslur og tókust á í fjármálageiranum.

Ég var þeirrar skoðunar þegar ég synjaði Flóahreppi staðfestingar á skipulagi að því er varðar Urriðafossvirkjun að það bæri að synja skipulaginu. Hæstiréttur telur raunar að um geti verið að ræða að réttaröryggi sé ógnað í slíkum samskiptum og því verði eftir sem áður um matskenndar ákvarðanir að ræða. Niðurstaða réttarins var þó skýr hvað varðaði þetta mál, að umræddum hagsmunum hafi ekki verið ógnað í þessu tilviki. Það er mikilvægt að halda því til haga að engin athugasemd var gerð við stjórnsýsluna í málinu heldur var um ágreining um túlkun lagaákvæðis að ræða.

Brýnt er að sjálfsögðu að halda því til haga að bæði umboðsmaður Alþingis og samgönguráðuneytið höfðu fjallað um þessi samskipti Flóahrepps og Landsvirkjunar og gert við þau svo alvarlegar athugasemdir að samgönguráðuneytið taldi þann hluta samkomulagsins sem varðaði greiðslur ólögmætan. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 31. ágúst 2009 að ekki væri í skipulags- og byggingarlögum að finna heimild til að aðrir gætu borið kostnað sem hlytist af aðalskipulagi líkt og leyfilegt sé varðandi kostnað sem hljótist af deiliskipulagi.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki fundið fyrir öðrum eins stuðningi úti í samfélaginu síðan haustið 2007 þegar svokallað REI-mál kom upp í borgarstjórn Reykjavíkur, en þá var um að ræða að tengsl viðskiptalífs og stjórnmála urðu hættulega náin og jafnframt á kostnað almannahagsmuna eins og kunnugt er. Umræðan er brýn sem þá kom upp og varðar grundvallaratriði og mikilvæga sýn. Þessi umræða sem nú er komin upp er ekki síður mikilvæg. Hún tekur á svipuðum þáttum.

Ég vil þakka fyrir allan þann stuðning sem ég hef fengið í þessu máli en mig langar að segja að lokum: Spurningin er þessi: Hvaða hagsmunir eiga að njóta vafans þegar upp koma álitamál? Eru það hagsmunir viðskipta- og atvinnulífs eða eru það hagsmunir almennings og náttúru? Í mínum huga er þetta einföld spurning og fjallar í rauninni um grundvöll umhverfis- og náttúruverndar í landinu og mitt verkefni sem umhverfisráðherra á Íslandi. Þessi forgangsröðun liggur fyrir í mínum huga: Náttúran og almenningur eiga alltaf að njóta vafans. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)