139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég hélt einmitt að það ætti að vera hlutverk hæstv. umhverfisráðherra að láta náttúruna og almenning njóta vafans. Það virðist vera lenska hér á landi að kalla hlutina aldrei réttum nöfnum. Það er kannski ágætt að hafa það í huga að sveitarfélagið þáði peninga af framkvæmdaraðila til að klára skipulagið og hv. þm. Mörður Árnason fór mjög rækilega yfir það á undan mér. Kannski ættum við að hafa í huga það sem ég hef séð síðan ég byrjaði að vinna á þessum undarlega vinnustað að það virðist einhvern veginn vera í lagi að áhrifamiklir aðilar og fyrirtæki hafi víðtæk áhrif á lagasetningu og gerð laga og kannski hefur það einmitt alltaf verið þannig. Það er ljóst að í aðdraganda bankahrunsins höfðu fjármálafyrirtækin of mikil áhrif á reglugerðir eða réttara sagt hvernig lög voru gerð sveigjanlegri í þágu þessara fyrirtækja.

Það er með sanni kominn tími á að setja skýrari línur hvað telst eðlilegt þegar kemur að beinum áhrifum á lagasetningar hins háa Alþingis. Því fagna ég þeim verkum og þeim aðgerðum sem hæstv. umhverfisráðherra hefur gert því það hefur dregið þessi mál inn í umræðuna. Hvað er eðlilegt? Er eðlilegt að Landsvirkjun hafi mikil áhrif á skipulagsmál á stöðum þar sem hún vill setja upp virkjanir? Er það eðlilegt? Við verðum að spyrja okkur að því. Er það hluti af hinu nýja Íslandi að halda áfram að gera eitthvað sem allir aðrir mundu kalla mútur?

Mig langar að benda á að þegar Mussolini skilgreindi fasisma gerði hann það út frá því hversu samofið fjármálalífið væri við pólitíkina. Það var skilgreining Mussolinis á fasisma.