139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hæstv. umhverfisráðherra reifaði ágætlega dóm Hæstaréttar. Henni til fróðleiks var ég búin að lesa hann og við væntanleg flestöll. Ég óska því eftir í síðari ræðu hæstv. ráðherra að hún svari þeim spurningum sem ég og fleiri höfum lagt fyrir hana í þessari umræðu. Ég ætla að ítreka þær þannig að það fari ekkert á milli mála hvað það er sem ég er að biðja um svör við.

Fyrsta spurningin er hvort ráðherrann ætli ekki örugglega að bera pólitíska ábyrgð á ólöglegri pólitískri ákvörðun.

Í öðru lagi leikur mér forvitni á að vita hvar í rökstuðningi ráðherrans fyrir dómi eða annars staðar í þessu ferli hin meintu umhverfisrök koma fram. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við ákvörðuninni? Ætlar hún að staðfesta skipulag Flóahrepps og þá hvenær? Ég spyr líka aftur hvort pólitík Vinstri grænna sé hafin yfir landslög.

Hæstv. ráðherra sagði: Hvaða hagsmunir eiga að njóta vafans? Og setti þar fram annaðhvort hagsmuni viðskipta- og atvinnulífs eða umhverfis og almennings. Ég leyfi mér að halda því fram og fullyrða að hagsmunir almennings, umhverfis og atvinnulífs fara ekki bara vel saman heldur eiga vel saman. Hvernig á almenningur í landinu að geta búið hér ef hann hefur ekki sterkt og öflugt atvinnulíf? Hvernig á almenningur að njóta náttúrunnar ef hann getur ekki búið hér sökum þess að hann getur ekki brauðfætt sig og fjölskyldu sína? Þannig er einfaldlega ástatt víða í samfélaginu og þess vegna segi ég að við eigum einhvern tímann að láta fólkið njóta vafans. Að sjálfsögðu eigum við að ganga vel um náttúruna. Það er enginn að tala um að gera það ekki, enda var öllum umhverfisskilyrðum og -ákvæðum í því samhengi fullnægt og um það er ekki deilt. (Forseti hringir.)

Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka pólitíska ábyrgð á pólitískum ákvörðunum. (Forseti hringir.) Hún yrði maður að meiri.