139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:17]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur þingmanninum fyrir yfirferðina og þá ágætu umræðu sem hefur farið fram. Ég held að okkur sé að lánast að átta okkur á því að umræðan er miklu viðameiri en það sem varðar beinlínis þetta mál eitt og sér.

Mig langar vegna orða málshefjanda að segja almennt um þá togstreitu sem ég dreg fram milli umhverfissjónarmiða og almannahagsmuna annars vegar og atvinnulífs og viðskiptahagsmuna hins vegar: Þetta eru hagsmunir sem geta togast á, þeir geta rekist á og þá skiptir miklu máli að átta sig á því. Það er eitt af því sem er dregið fram í rannsóknarskýrslunni, að sé mikilvægt að hafa að leiðarljósi. Mér finnst dálítið dapurlegt að mörgu leyti og ég hef hugsað svolítið um það, af því að ég er ekki bara áhugamaður um stjórnmál fortíðar heldur líka dagsins í dag, að ég hef ekki enn þá hitt sjálfstæðismann sem hefur í alvörunni áhuga á umhverfismálum. (Gripið fram í.) Mér finnst sjálfstæðismenn eiginlega alltaf og undantekningarlaust víkja þeim hagsmunum til hliðar fyrir aðrar áherslur. (Gripið fram í: Engin svör?) Mér finnst það vandræðalegt (Gripið fram í.) fyrir fulltrúa þess ágæta stjórnmálaflokks.

Varðandi pólitíska ábyrgð, já, ég axla pólitíska ábyrgð á öllum mínum verkum með því að vinna þau störf sem mér er trúað fyrir. Hér er (Gripið fram í.) þingbundin stjórn og ég sit í umboði meiri hluta Alþingis.

Varðandi staðfestingu á skipulaginu, já, hún liggur fyrir. Niðurstaða dómsins er sú að mér beri að staðfesta skipulag fyrir Flóahrepp. Ég mun hitta sveitarstjórnarmenn á morgun eða hinn og ræða með hvaða hætti sé best að gera það. Það eru tvenns konar skipulög í gangi núna, annars vegar það gamla en sveitarstjórnarmenn fóru hins vegar í gang með nýtt skipulag eftir niðurstöðu mína þar sem var farið í allan ferilinn aftur. Ég mun væntanlega eiga með þeim góðan fund um næstu skref í því.

Spurningin um hvort pólitík Vinstri grænna sé ofar landslögum þá er það ekki svo en hins vegar erum við hér öll (Forseti hringir.) með einhverja pólitíska stefnumótun að leiðarljósi. Í mínu tilviki er það pólitík Vinstri grænna, sérstaklega grænna.