139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta og gera athugasemdir við að virðulegur forseti fann tilefni til þess í lok fyrri ræðu minnar áðan að biðja mig að gæta orða minna. Ég vil fá skýringar og bið hæstv. forseta að skýra nánar í hverju ég eigi að gæta orða minna. Í dag hafa ýmis stór orð verið látin falla um alls konar mútuþægni og mútugreiðslur, mútuþægni af hálfu kjörinna fulltrúa og mútugreiðslur af hálfu opinberra fyrirtækja, sem ekki hefur verið gerð athugasemd við og mér misbýður það, virðulegi forseti.

Varðandi það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði getur það ekki verið skýrara, jafnvel þótt það sé sett fram í almennum skilningi. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í gær, með leyfi forseta:

„Áfram stendur það álitamál hvort menn vilja hafa fyrirkomulagið þannig að utanaðkomandi aðilar geti keypt sér niðurstöður í skipulagsmálum sem ég held að þingmenn ættu að taka alvarlegar en hitt.“

Það er ekki hægt að segja þetta neitt skýrar, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Hæstv. fjármálaráðherra var að bera þá sök á þetta fólk að það hefði keypt og selt skipulag. (Forseti hringir.) Um það var ekki að ræða.