139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

afbrigði um dagskrármál.

[15:34]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eina ástæðan fyrir því að bera þarf þessa tillögu upp með afbrigðum er sú að 10 mínútum eftir að fundi fjárlaganefndar lauk í gærkvöldi, rétt fyrir klukkan 7, var dagskrá þingfundar í dag breytt. Þetta mál var ekki á dagskrá þingfundar í dag. Ef dagskrá sem fyrir lá í gærmorgun hefði verið látin halda sér hefði því aldrei þurft að koma til þessarar atkvæðagreiðslu. Við værum ekki að fara að ræða Icesave núna og þyrftum ekki að fara út í þessi afbrigði.

Afbrigði eru yfirleitt þannig að greiða þarf um þau atkvæði vegna þess að mál eru of seint fram komin frá nefndum, annaðhvort hafa þær ekki haft tíma til að vinna þau eða að framkvæmdarvaldið hefur verið seint að leggja þau fram. Hér er ekki um það að ræða heldur var dagskrá þingfundar í dag breytt á síðustu stundu og ekki hefur unnist tími til að klára málin með þeim fyrirvara sem nauðsynlegur er. Þetta er ekki Hreyfingunni að kenna, þetta er stjórn þingsins að kenna. Við skulum bara afgreiða það þannig. (Forseti hringir.)