139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Í þingsköpum Alþingis, 2. mgr. 55. gr., segir:

„Forseta er þó heimilað að rýmka ræðutíma um þingmál við hverja umræðu sem er ef það er svo umfangsmikið eða mikilvægt að ekki sé hægt að ræða það á fullnægjandi hátt innan þeirra reglna sem annars gilda, sbr. 72. gr. Einnig er forseta heimilt að rýmka ræðutíma þingmanns ef sérstaklega stendur á og nauðsyn krefur. Ákvörðun forseta samkvæmt þessari málsgrein skal liggja fyrir áður en umræða hefst.“

Nú er umræða ekki hafin. Þetta mál er þannig vaxið að ég treysti mér ekki til að ræða það á þeim 15 mínútum sem mér er úthlutað. Það efni sem ég hef ætlað mér að fara yfir er töluvert umfangsmeira. Ég óska því eftir lengri ræðutíma.