139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þann úrskurð hæstv. forseta að ætla að neita þingflokkum um að rýmka ræðutímann við 3. umr. í þessu mikilvæga máli, máli sem frá upphafi hefur verið saga endalausra mistaka. Þegar við þingmenn í stjórnarandstöðu förum fram á að fá hæfilegan tíma til að ræða þetta umfangsmikla mál fáum við til þess 15 mínútur. Það er einfaldlega ekki viðunandi að hæstv. forseti verði ekki við beiðni okkar.

Ég vil líka taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað fyrir því að nauðynlegt sé að við fáum úrskurð um það hvort yfirstjórn þingsins telji að sú breytingartillaga sem hv. þm. Þór Saari hefur lagt fram sé þingtæk. Ég vona að hún sé það en ég tel að við þurfum betri tíma til að fara yfir það mál. Ég get ekki séð hvaða máli einn eða tveir dagar (Forseti hringir.) skipta í þeim efnum. Við skulum ekki rasa um ráð fram. Við skulum vanda okkur. Þetta mál á það nú skilið á lokametrunum.