139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

breytingartillögur og ræðutími í umræðum um Icesave.

[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Varðandi þá beiðni sem hér hefur komið fram frá þingflokkum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar finnst mér rétt að forseti rökstyðji aðeins ákvörðun sína um að fallast ekki á ósk þessara þingflokka um lengingu ræðutíma. Samkvæmt þingsköpum er forseta alltaf heimilt að lengja umræðu. Það er rétt að forseta er aðeins skylt að gera það við 2. umr. og að uppfylltum tilteknum skilyrðum en hann hefur alltaf þessa heimild. Ef forseti kýs að verða ekki við beiðni tveggja þingflokka um að verða við því að tvöfalda tímann, eða lengja hann eftir atvikum, finnst mér að það kalli á rökstuðning af hálfu forseta.