139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

breytingartillögur og ræðutími í umræðum um Icesave.

[15:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst afar dapurlegt að halda því fram að breytingartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu sé ekki þingtæk í ljósi þess að lögfræðingar Alþingis hafa farið yfir málið dögum saman og ég veit að þar eru góðir aðilar sem hafa skilað góðri vinnu. Þetta er einhvers konar smjörklípa.

Varðandi það að neita stjórnarandstöðunni um tvöfaldan ræðutíma er ég bara algjörlega bit, ég verð að segja það alveg eins og er. Það er heimild í 2. mgr. 55. gr. þingskapalaga um að forseta sé „heimilað að rýmka ræðutíma um þingmál við hverja umræðu sem er ef það er svo umfangsmikið eða mikilvægt að ekki sé hægt að ræða það á fullnægjandi hátt innan þeirra reglna sem annars gilda“.

Hvaða mál fellur þarna undir ef ekki Icesave-málið? Er einhver af þingmönnum meiri hlutans reiðubúinn að koma í ræðupúlt og halda því fram að það sé ekki svo umfangsmikið og mikilvægt að heimila eigi (Forseti hringir.) tvöfaldan ræðutíma? Hæstv. forseti verður að svara spurningum sem til hennar er beint.