139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

breytingartillögur og ræðutími í umræðum um Icesave.

[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég lét aldrei þau orð falla að ég teldi að tillagan á þskj. 833 væri ekki þingtæk. Það voru ekki mín orð. Ég sagði ekki orð um það og bið menn að hafa rétt eftir. Ég sagði hins vegar að ég teldi að sú leið sem hér væri lögð til færi í bága við stjórnskipun Íslands. Það er vegna þess að löggjafarvaldið er hér og þegar Alþingi hefur sett lög og forseti staðfest þau eru það gild lög í landinu. Sú aðferð sem hér er lögð til gengur út á það að lögin verði ekki fullnustuð, jafnvel þó að þau séu sett með lögmætum hætti á Alþingi, nema eitthvað annað hafi gerst. Ég tel að sú aðferð gangi ekki upp. Það er að sjálfsögðu hægt að taka ákvörðun um að setja mál, t.d. lagafrumvarp, í þjóðaratkvæðagreiðslu með samþykkt þingsályktunartillögu þar að lútandi. Það gilda um það ákveðin lög og það er hægt að fara að þeim en þessi aðferð gengur að mínu viti ekki upp gagnvart stjórnskipuninni. Það er það sem ég var að segja en ekki að málið væri ekki þingtækt.

Það hefur verið ákveðið að taka breytingartillöguna á dagskrá enda studdi ég að það yrði gert og efnisumræðuna um hugmyndina (Forseti hringir.) sem þar liggur að baki.