139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

breytingartillögur og ræðutími í umræðum um Icesave.

[15:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir megnri óánægju með það að frú forseti skuli ekki virða þá ósk þingflokks Hreyfingarinnar sem nýtur stuðnings þingmanna sumra annarra flokka, víðtæks stuðnings innan míns þingflokks að ég tel, að við séum ekki virt viðlits í þeim efnum þegar við óskum eftir því að fá að ræða þessi mál með rýmri ræðutíma en þingsköp kveða á um. Við erum að ræða eitt stærsta mál sem hefur komið inn á borð Alþingis í sögu lýðveldisins og ef forseti þingsins ætlar að hefja þessa umræðu með því að neita þingmönnum um að fá að ræða þetta mál með sómasamlegum hætti byrjar þessi umræða ekki vel. Við erum svo sem vön því í þessari umræðu að hún hafi verið afvegaleidd og við höfum verið sökuð um málþóf hér. Það er einfaldlega nauðsynlegt að reifa ákveðna þætti í svo umfangsmiklu máli og það er gjörsamlega óásættanlegt að ætlast til þess að ég fái 15 mínútur til þess í fyrri umferð, fimm mínútur í seinni umferð og síðan sé umræðunni lokið. Ég krefst þess í nafni málfrelsis (Forseti hringir.) á þinginu að frú forseti (Forseti hringir.) kalli saman þingflokksformenn og þeir fari yfir þessa stöðu vegna þess að við erum ekki að tala um neitt venjulegt mál hér í dag.