139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd fundaði á milli 2. og 3. umr. um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember sl., um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum. Í ræðu minni mun ég gera grein fyrir afstöðu meiri hluta fjárlaganefndar til þeirra mála sem fjallað var um á fundum nefndarinnar á milli umræðna.

Í kjölfar umræðu í fjárlaganefnd vísaði nefndin því til viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar þann 18. janúar sl. að nefndirnar tækju til skoðunar hvort rétt væri og þá hvernig því yrði við komið að íslensk fjármálafyrirtæki beri þann kostnað sem annars hefði fallið á ríkissjóð vegna málsins. Nefndirnar fjölluðu um málið m.a. í tengslum við umfjöllun um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta samanber þskj. 268, mál nr. 237 og einnig er varðar sérstakan bankaskatt. Fulltrúar bæði meiri hluta og minni hluta nefndanna kynntu álit sín fyrir fjárlaganefnd.

Í erindi meiri hluta efnahags- og skattanefndar kemur fram að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Alþingi lýsi vilja sínum til þess að skatttekjur af fjármálastarfsemi eigi yfir lengri tíma að standa straum af kostnaði við samning þann sem hér um ræðir. Ætla mætti að núverandi bankaskatti verði viðhaldið, en lögin um þann skatt eigi að koma til endurskoðunar í upphafi næsta árs. Meiri hluti efnahags- og skattanefndar sér ekkert í vegi fyrir því að Alþingi tilgreini við það tækifæri að tekjur af skattinum skuli renna til greiðslu þess kostnaðar sem hugsanlega hlýst af Icesave-samkomulaginu.

Meiri hluti viðskiptanefndar segir í áliti sínu að mikilvægt sé að hugmynd um hærri bankaskatt sem notaður yrði að hluta eða öllu leyti til að greiða Icesave-skuldbindingar ríkissjóðs verði vandlega íhuguð, bæði hvað varðar mögulega álagningarprósentu og skattstofn, auk áhrifa slíkrar skattlagningar á vaxtamun í bankakerfinu.

Meiri hluti viðskiptanefndar tekur einnig fram í erindi sínu að uppbygging nýs innstæðutryggingakerfis sé forsenda þess að unnt verði að aflétta ríkisábyrgð á öllum innstæðum í innlánastofnunum. Án trúverðugs innstæðutryggingakerfis sé hætt við að ábyrgð ríkisins festist í sessi en það skapar freistnivanda og óvissu fyrir ríkissjóð þar sem innlánsstofnanir geta áhættulaust aukið útlán í skjóli ríkisábyrgðar. Því sé ekki ráðlegt að fresta uppbyggingu innstæðutrygginga með því að greiða úr sjóðnum hugsanlegan kostnað vegna Icesave-samkomulagsins.

Meiri hluti fjárlaganefndar tekur undir innsend erindi meiri hluta viðskiptanefndar og meiri hluta efnahags- og skattanefndar og hvetur til áframhaldandi skoðunar á málinu. Ekki er þörf á því að niðurstaða fáist í það mál áður en frumvarpið sem hér er til umræðu verður að lögum þar sem um er að ræða mál sem ekki snertir samskipti við Breta og Hollendinga eða efni frumvarpsins að öðru leyti.

Á fund fjárlaganefndar komu einnig hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ásamt Helgu Jónsdóttur ráðuneytisstjóra og Kjartani Gunnarssyni, skrifstofustjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Fyrir þau voru lagðar spurningar sem fram komu við 2. umr. frumvarpsins sem hér er til umræðu, spurningar er varða tilskipun ESB um innstæðutryggingar og hugmyndir um uppbyggingu sjóðsins hér á landi.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mælti fyrir frumvarpi um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á haustþingi. Megintilgangur frumvarpsins er að byggja upp trúverðugt innstæðutryggingakerfi hér á landi. Hlutverk slíkra kerfa er að tryggja innstæður almennra innstæðueigenda fyrir skakkaföllum af völdum greiðsluþrots innlánsstofnana, en aðgangur að þeim innstæðum er í raun grundvöllur þess að greiðslumiðlunarkerfi í landinu virki og að ekki myndist lausafjárkreppa með tilheyrandi vanskilum, segir í minnisblaði frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu til fjárlaganefndar.

Í minnisblaðinu er einnig farið yfir þær varnarlínur sem ábyrgðarkerfi um innstæður er sett. Löggjöf hefur verið bætt á þeim sviðum og verður endurbætt í ljósi efnahagshrunsins. Endurmat stendur einnig yfir á vettvangi alþjóðlegra eftirlitsaðila og stjórnvalda.

Tilgangur þessara öryggisráðstafana er að sjá til þess að líkur á kerfisáfalli verði sem minnstar, þ.e. falli eins eða fleiri af stærstu fjármálafyrirtækjunum.

Að mati ráðuneytisins er raunhæft að ætla innstæðutryggingakerfinu að mæta áfalli þegar innlánsstofnun sem ekki er kerfislega mikilvæg lendir í greiðsluþroti. Hér á landi hefur verið litið svo á að þrír stóru viðskiptabankarnir séu kerfislega mikilvægir en aðrar innlánsstofnanir ekki. Samráðshópur á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hefur lagt fram hugmyndir sem kynntar voru viðskiptanefnd um með hvaða móti sé hægt að sjá til þess að tryggingarsjóðurinn nái lágmarksstærð árið 2020.

Við 2. umr. um Icesave-samkomulagið komu fram þær ábendingar að í ríkisábyrgð á skuldbindingum vegna Icesave gæti falist tilkynningarskyld ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins og því þyrfti að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um aðstoðina í samræmi við ákvæði samningsins.

Í samtölum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra við yfirstjórn eftirlitsstofnunarinnar í síðustu viku var þetta atriði rætt. Þar kom fram sá sameiginlegi skilningur aðila að ríkisábyrgð á endurgreiðslu til tryggingarsjóða Breta og Hollendinga fæli ekki í sér tilkynningarskyldan ríkisstuðning, enda væri ekki um að ræða ríkisstyrk til banka í samkeppnisrekstri. Ríkisábyrgðin væri vegna þess að ekki var fullnægjandi innstæða í hinum íslenska tryggingarsjóði og honum væri ætlað að mæta lágmarksinnstæðutryggingu samkvæmt Evrópurétti. Ekki er því ástæða til að telja þetta atriði hindra samþykkt málsins á Alþingi.

Á fundi fjárlaganefndar komu fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, Bankasýslunni og fjármálaráðuneytinu til að fara yfir áætlað greiðsluflæði gjaldeyris frá nýja Landsbankanum vegna væntanlegra greiðslna hans í erlendri mynt sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Varðandi málefni nýja Landsbankans og hans meinta vanda vegna þess sem kallað hefur verið misvægi í gjaldeyrisjöfnuði sem fram kæmi við greiðslu á skuldabréfi til gamla bankans, vill meiri hlutinn taka fram að samkvæmt upplýsingum frá Bankasýslunni og stjórnendum nýja bankans hefur bankinn ekki óskað eftir viðræðum við gamla bankann um skuldabréfið sem um ræðir og telur reyndar ekki þörf á því. Sömuleiðis er ekki talið heppilegt með tilliti til núverandi gjaldeyrisjafnaðar bankans að breyta hluta skuldabréfsins í íslenskar krónur. Samkvæmt reglum Seðlabankans nemur gjaldeyriseign nýja bankans hærri fjárhæð en gjaldeyrisskuld, en unnið er að því að breyta hluta þeirra í lán í krónum.

Eiginfjárstaða nýja bankans er afar sterk en samkvæmt uppgjöri bankans nam eiginfjárstaða hans í lok september á síðasta ári 17,3% og hefur styrkst síðan. Lausafjárhlutfall bankans er mjög hátt og gjaldeyristengdar eignir hans og skuldir í góðu jafnvægi en afborganir af skuldabréfinu hefjast ekki fyrr en 2014.

Í heild voru samningar um alla bankana þrjá sem féllu þannig að gjaldeyrisflæði frá erlendum lánum er miklu meira en greiðslur á skuldabréfum bankanna vegna þess að gjaldeyrisskuldir voru skildar eftir í gömlu bönkunum. Flæði milli aðila leysist á gjaldeyrismarkaði eða í gegnum Seðlabankann. Því snýst málið ekki um gjaldeyrisflæði innan Landsbankans heldur gjaldeyrisflæðið á markaðnum í heild. Seðlabankinn hefur t.d. nú þegar tryggt sér gjaldeyrisflæði bæði frá Arion banka og frá Íslandsbanka. Afgangur af vöruskiptajöfnuði og gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hafa einnig jákvæð áhrif á þessum markaði svo dæmi séu tekin.

Landsbankinn hefur margar leiðir til að afla sér gjaldeyris á árunum 2016–2018 þegar þörf verður á. Hann getur lánað í ný fjárfestingarverkefni hér á landi sem hafa gjaldeyristekjur. Hann getur keypt gjaldeyri á markaði. Hann getur endurfjármagnað sig með erlendum lánum eins og allar aðrar fjármálastofnanir gera. Og að síðustu ef í harðbakkann slær getur hann greitt af skuldabréfinu í krónum eins og gert er ráð fyrir í samningnum á milli gamla bankans og þess nýja. Þessi umfjöllun um nýja bankann breytir því ekki áliti meiri hlutans um að samþykkja beri frumvarpið.

Fulltrúar Seðlabankans fóru ítarlega yfir atriði er varða skuldastöðu þjóðarinnar, þáttatekjujöfnuð, viðskiptajöfnuð og greiðsluflæði. Fram kom í máli þeirra að opinberar hagtölur geti gefið afar villandi mynd af horfum um viðskiptajöfnuð og greiðsluflæði vegna þess að vextir á skuldum hinna föllnu banka sem enn koma fram í opinberum hagtölum muni aldrei verða greiddar. Einnig rugli myndina starfsemi fyrirtækja sem að mestu leyti starfa á alþjóðlegum markaði og eru enn með höfuðstöðvar á Íslandi. Að mati þeirra væri í raun um umtalsverðan dulinn afgang á viðskiptajöfnuði þjóðarinnar að ræða sem hafi líklega numið meira en 13% landsframleiðslunnar á síðastliðnu ári og verði svipaður næstu árin.

Við 2. umr. kom fram breytingartillaga sem vísað var til 3. umr. Tillagan felur efnislega það í sér að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta væri heimilt að stöðva greiðslur við tvenns konar aðstæður. Annars vegar ef þar til bær úrlausnaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ekki væri fyrir hendi ríkisábyrgð á innstæðum og hins vegar ef Evrópulöggjöf breyttist eða skýrðist eða hin lagalega skylda til að ábyrgjast innstæður minnkaði með einhverjum hætti.

Nefndin ræddi tillöguna og fékk á sinn fund fulltrúa úr samninganefndinni. Meiri hlutinn telur að ekki sé unnt að fallast á breytingartillöguna og ástæðurnar eru í meginatriðum þær að komist hefur verið að niðurstöðu í samningaviðræðum þar sem allir aðilar viðurkenna að það þurfi að kosta nokkru til til sameiginlegrar lausnar. Hin lagalega óvissa leiddi m.a. til þess að umsamin kjör eru talsvert hagkvæmari en á þeim lánum sem veitt eru til Evrópuþjóða í vanda nú um stundir. Þau kjör bjóðast ekki nema viðsemjendur hafi vissu fyrir því að fá greitt. Með því að setja einhliða fyrirvara af því tagi sem lagt er til er ljóst að einni meginforsendunni fyrir því samkomulagi sem komist var að er raskað.

Þá er ljóst að ástæður þess að samið er um Icesave-málið eru fleiri en ætluð ábyrgð ríkja á innstæðum. Í athugasemdum með frumvarpinu sem og nefndarálitum er ítarlega rakið að yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda, bæði fyrr og síðar, um Icesave, sá háttur sem hafður var á flutningi innstæðna ásamt eignum yfir í nýja bankann, auk almennrar þýðingar þess að semja um alvarleg deilumál við vinaþjóðir, eru ekki síður mikilvæg atriði þegar vegið er og metið hvort ljúka eigi samningunum. Hin lagalega skylda kynni ekki síður að hvíla á þessum stoðum. Þess vegna er órökrétt að áskilja einhliða fyrirvara vegna innstæðutilskipunarinnar einnar.

Við þetta bætist að ESA hefur lýst því yfir að svokallað samningsbrotamál vegna meintra brota Íslendinga á innstæðutilskipuninni og mismunar á grundvelli þjóðernis verður fellt niður ef Bretar, Hollendingar og Íslendingar komast að samkomulagi. Það þýðir að EFTA-dómstóllinn mun ekki dæma í málinu og því verður ekki um að ræða að hin lagalega skylda skýrist frekar á þeim vettvangi. Að auki má telja ólíklegt að ef löggjöf á vettvangi Evrópusambandsins verði breytt verði það gert afturvirkt þannig að áhrif hafi á þetta mál.

Að öllu samanlögðu er ljóst að breytingartillagan um einhliða fyrirvara Íslendinga vegna lagabreytinga eða dóma um önnur mál mun einfaldlega fela í sér að Icesave-samningnum væri hafnað af viðsemjendum okkar og við tæki fullkomin óvissa um lyktir málsins sem meiri hluti þingmanna telur að rétt sé að binda endi á með fyrirliggjandi samkomulagi.

Á fundi fjárlaganefndar kom fram breytingartillaga þess efnis að lögin öðlist gildi þegar samþykki hefur fengist með meiri hluta atkvæða í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillögunni var hafnað af meiri hluta fjárlaganefndar sem taldi að tillagan um þjóðaratkvæðagreiðslu ætti ekki að koma frá fjárlaganefnd, en gerði jafnframt ráð fyrir að flutningsmaður legði tillöguna fram hér á þinginu til umfjöllunar sem nú hefur komið á daginn.

Frá því að samkomulag milli Íslands, Bretlands og Hollands um lausn Icesave-málsins var kynnt á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar, viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar í byrjun desember sl. hefur fjárlaganefnd haft málið til umfjöllunar. Fjölmargir aðilar gáfu nefndinni umsögn um frumvarpið sem hér um ræðir. Nefndin hefur aflað sér allra þeirra upplýsinga um málið sem þörf var talin á til að ljúka umfjöllun þess. Um þetta er fjallað ítarlega í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. málsins á Alþingi og ástæðulaust að fara frekar yfir hér.

Ekkert einstakt mál hefur fengið eins mikla umfjöllun á Alþingi og Icesave-málið. Fjárlaganefnd hefur tekið allan þann tíma sem hún hefur talið sig þurfa til að fjalla um og afgreiða þetta stóra og á margan hátt flókna mál og leggur það nú í hendur Alþingis til lokaumræðu.

Íslensk stjórnvöld hafa ætíð viljað leysa deiluna til lykta með samningum og talið hag okkar best borgið með þeirri leið. Hér liggja fyrir ásættanlegir samningar. Sú áhætta sem tekin yrði með því að fara með deiluna fyrir dómstóla er gífurleg. Með áfellisdómi biði Ísland tjón sem yrði bæði efnahagslegt og pólitískt (HöskÞ: Rökstutt?) og ef kröfur Breta og Hollendinga yrðu þar teknar til greina, um að greiðslur á öllum kröfum innstæðueigenda ásamt áföllnum vöxtum og vöxtum á endurgreiðslukröfu, yrði tjónið stórkostlegt (HöskÞ: Engar líkur á því.) og þá niðurstöðu hafa lögmenn ekki útilokað. (HöskÞ: Engar líkur.)

Með því samkomulagi sem hér liggur fyrir hefur verið komið til móts við þá helstu gagnrýni sem fram kom við fyrri samninga og ráðin bót á vafaatriðum. Fyrir samninganefndinni fór erlendur sérfræðingur í slíkri samningagerð og stjórnarandstaðan átti þar sérstakan fulltrúa. Öll samninganefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áorðnum breytingum sem samþykktar voru við 2. umr.