139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er augljóst að fjárlaganefnd fór ekki í neina líkindareikninga því að mér sýnist að hv. þingmaður sé algjörlega úti á túni þegar hún talar um að Ísland muni hljóta verra af ef við samþykkjum ekki samninginn. Við erum að samþykkja opinn tékka á framtíðina og við höfum ekki hugmynd um hvað hann verður hár. Það er hreinlega spurning hvort það sem hér á að fara fram sé löglegt.

Hvernig geta þingmenn rökstutt að það sé leyfilegt og þeir geti lifað með því að senda framtíðinni, börnunum, opinn tékka (KÞJ: Og það frekar feitan.) í hönd Breta og Hollendinga? Er það það sem við viljum? Og eitt er alveg furðulegt, frú forseti, og mig langar að spyrja hv. þingmann um það. Hvers vegna í ósköpunum skilaði meiri hlutinn ekki nefndaráliti á milli umræðna? Í ræðu þingmannsins komu fram alls konar fullyrðingar og upplýsingar sem hefði verið gott að fá í nefndaráliti. Hvers vegna skilar meiri hlutinn ekki nefndaráliti? Er hann feiminn við það?

Vinnubrögðin sem höfð eru uppi eru líka alveg furðuleg. (Forseti hringir.) Meiri hlutinn (Forseti hringir.) er á flótta undan þjóðinni, á flótta frá lýðræðinu, (Forseti hringir.) þegar þjóðin ætlar sér að fá að greiða atkvæði um þetta mál.