139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi nefndarálitið er mér sagt af reyndari mönnum að það sé alls ekkert lögmál að menn skili framhaldsnefndaráliti og sérstaklega ekki ef ekki er farið fram á neinar breytingar. (GBS: En nýjar upplýsingar?)

Þegar ég tala um að hagsmunum Íslands sé best borgið með þessum ásættanlegu samningum er það vegna þess að efnahagsbatinn veltur á því að við vinnum okkur traust umhverfisins svo að fjármagn fari að berast hingað til landsins, bæði til fjárfestinga og til endurfjármögnunar. Lausn Icesave-deilunnar með ásættanlegu samkomulagi við nágrannaþjóðir okkar skiptir þar sköpum. Ef hv. þingmaður áttar sig ekki á þessu segi ég að hann sé úti á túni. (GBS: Þetta er bara bull.)