139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort leyniskýrsla sé rétta orðið, en skýrslan heitir einfaldlega „Hvað skuldar þjóðin?“ og ber yfirtitilinn Drög að riti nr. 4 – Efnahagsmál og er enn þá stimpluð sem trúnaðarmál vegna þess að um drög er að ræða og Seðlabankinn vildi ekki að sú skýrsla færi í dreifingu. Seðlabankinn gerir, eins og ég gerði grein fyrir í áliti mínu, nýstárlega tilraun til að meta greiðsluhæfi þjóðarbúsins með nýjum hugtökum, orðanotkun og aðferðum sem að mínu viti hafa ekki þekkst fyrr. Mikið er talað um dulinn viðskiptajöfnuð sem ég átta mig ekki á hvað er, enda hafði ég ekki mikinn tíma — ég var að lesa þessa skýrslu til klukkan fimm í morgun.

Greiðsluhæfi þjóðarbúsins er metið út frá þeim forsendum að einstakar risastórar skuldir stórra fyrirtækja eru teknar frá og ekki taldar með. Það er því svolítið erfitt að átta sig nákvæmlega á hvert greiðsluhæfi þjóðarbúsins sé. Seðlabankinn heldur því samt fram að við munum standa undir þessum greiðslum. Ég tel mig hafa fundið það út að í skýrslunni séu ekki taldar upp allar þær skuldir sem ríkissjóður ber. Það vantar töluvert af skuldum sveitarfélaga. Það vantar alla umfjöllun um ríkisábyrgðir sem eru orðnar 1.300 milljarðar. Þrátt fyrir yfirlegu er enn þá óljóst í mínum huga hvað þjóðin í rauninni skuldar. Þar sem um drög er að ræða vænti ég þess að áður en endanleg skýrsla kemur út muni Seðlabankinn gera nákvæmari grein fyrir því hver staðan er og því sem skiptir kannski mestu máli — hvernig eigi að borga þetta, hvaðan (Forseti hringir.) peningarnir eigi að koma.