139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir spurninguna. Ef ég byrja á að svara henni finnst mér það að sjálfsögðu eðlilegasti farvegur málsins að Alþingi sjálft vísi því til þjóðarinnar. Hér er opinn tékki á framtíðina, það er talað um árið 2046 í frumvarpinu. Það er ekki líðandi að Alþingi taki ákvarðanir fyrir fólkið í landinu 25 ár fram í tímann. Það verður að spyrja þjóðina. Ég veit ekki hvort það tekst og Alþingi komi því í verk að vísa þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef ekki vona ég svo sannarlega að forseti Íslands rækti vel hlutverk sitt og endurtaki það að synja lögunum staðfestingar og þau fari þá sjálfkrafa í þjóðaratkvæðagreiðslu upp frá því.

Varðandi skýrslu Seðlabankans er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er forkastanlegt að svona mikilvæg skýrsla, sem var lögð fram undir hádegi í gærmorgun á fundi fjárlaganefndar, skuli ekki rædd efnislega í nefndinni. Ég hafði ekki hugsað mér að skrifa ítarlegt nefndarálit eftir umfjöllun í nefndinni milli 2. og 3. umr., en þegar ég fór að lesa þessa skýrslu gat ég ekki hætt. Ég hætti ekki fyrr en klukkan fimm í morgun þegar ég var búinn með skýrsluna og hafði skrifað tíu blaðsíðna nefndarálit. Það er forkastanlegt að Alþingi skuli afgreiða málið með þeim hætti sem það gerir. Þessi skýrsla er um margt óljós en það verður að virða það við Seðlabankann að greiðslujafnaðarstatistík, eins og hún er kölluð, er mjög flókið fyrirbæri. Það er mjög erfitt að reikna út greiðsluhæfi þjóðarbús við eðlilegar kringumstæður. Það er enn þá erfiðara að gera það fyrir Ísland í dag vegna hrunsins. Seðlabankinn gerir tilraun til þess og er líka með ákveðna tilraunastarfsemi í gangi, ekki endilega til að fegra stöðuna heldur til að leggja eitthvert mat á hana. (Forseti hringir.) Mér finnst áhugavert að Seðlabankinn skuli grípa til nýrra vinnubragða. Ég (Forseti hringir.) lít til þess að sjá endanlega niðurstöðu þessarar skýrslu þegar þar að kemur.